sunnudagur, apríl 29, 2007

Annasöm helgi


Þá er helgin liðin og hefur margt verið baslað í búskapnum. Byggið fór niður í jörðina á laugardag í blíðskaparveðri. Anna Karlotta mætti til að hafa stjórn á verkinu og fór síðan í starfsnám við mjaltir á Syðra-Hóli að því loknu. Hún kom hæstánægð heim og skildi ekkert í foreldrum sínum að vera ekki með kýr í sveitinni sinni.

Sunnudagurinn fór síðan í undirbúning sauðburðar, langt er komið með að smíða stíur í minkahúsinu og búið að þrífa mikið til í fjárhúsunum. Nathalie þreif sauðburðarganginn svo vel að húsfreyja var að hugsa um að reiða þar fram kvöldverð.

Vorkveðja frá bændum á bakkanum.

mánudagur, apríl 23, 2007

Lambakóngur og Lambadrottning


Það kom að því að fyrstu lömbin litu dagsins ljós á bakkanum. Í gær kom ein af ánum sem heimtust úr Nýfundnalandi (a.k.a. Höskuldsstaðalandi) með lambakóng og drottningu. Lóan og hrossagaukurinn létu bæði í sér heyra, ljómandi fallegt veður og sannkallað vor í lofti.

Annars hafa húsráðendur á bakkanum verið heldur lélegir í dag, hér stendur yfir ælupest með tilheyrandi slappleika og leiðindum. Þá var nú gott að hafa danska vinnukonu og íslenskan verknema sem sáum um hirðingu í dag.

Svo má ekki gleyma nýjasta fjölskyldumeðlimnum sem bættist við í gær, hún Spóla litla frá Hæli sem er dótturdóttir gömlu Spólu þeirra Jonna og Ólafar sem hefur marga þúfuna smalað á Laxárdalnum. Vonandi verður sú stutta ekki eftirbátur hennar þar í framtíðinni.

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar

Það lítur út fyrir gott sumar, ekki nóg með að vetur og sumar hafi frosið saman, heldur skörtuðu norðurljósin sínu fegursta í gærkvöldi, eins og húsfreyjan varð vitni að þegar hún rölti bæjarleið eftir saumaklúbb í Svangrund. Enn bólar ekkert á lömbum, sem þó gætu farið að stinga út hausnum hvað úr hverju, þar sem síðheimtur hafa verið með eindæmum drjúgar í vetur.

Það fækkar því miður á bakkanum á morgun, því Marie okkar elskuleg hefur nú fengið starf í Namibíu og heldur af stað í fyrramálið. Það verður mikill söknuður að sjá á eftir henni, enda hefur hún staðið sig alveg frábærlega hér hjá okkur.

Í tilefni þess að hún er að kveðja, fórum við mæðgur með hana í bíltúr í dag og fórum hring á landareigninni, með viðkomu í Laxárgilinu, Ósvík og Stekkjarvík. Læt fylgja nokkrar myndir frá ferðalaginu.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Mæðgur í fjárhúsunum



Heimasætan og húsmóðirin fóru saman í fjárhúsin í morgun. Reyndar átti heimasætan að sofa á meðan húsmóðirin gæfi, en hún taldi vera kominn tími til að hún færi nú að vinna fyrir þessum kindum sínum og brá því blundi með fyrra fallinu. Þar sem hún er nú ekki farin að hlaupa um ennþá og eiginlega ótækt að láta hana skríða fram á garðana með hneppin, brugðum við á önnur ráð sem sjá má á myndunum...
p.s. Lóan er komin svo það er vor í lofti á bakkanum....


This page is powered by Blogger. Isn't yours?