mánudagur, febrúar 28, 2005

Lömbin talin...

Loksins loksins

Þá liggur fyrir talning á fósturvísum á Sölvabakka, en það gekk mikið á um helgina. Þjálfarinn og Heiða komu og töldu á fullu, Bjarki og Deddý komu og aðstoðuðu svo þetta gekk hratt og vel. Þær stöllur voru ekki nema rétt tæplega 3,5 tíma að telja öll lömbin í fjárhúsunum... vel af sér vikið finnst mér.

...and the final results are.... tatatamm:

Von er á 708 lömbum úr fjárhúsunum heima, en “wildcard”-ið liggur sem sagt hjá rollunum 68 sem eru upp í Lækjardal, og ef við reiknum nú með a.m.k. rúmlega hundrað þar, þá verða vel yfir 800 lömb sem líta dagsins ljós í vor, ef allt gengur að óskum. Í allt virðist frjósemin ætla að vera 1,74 lömb eftir fullorðna á, en það var dálítið af einlembum innan um, sér í lagi hjá veturgömlu ánum (sem verða tvævetlur í vor). Gemlingarnir eru hins vegar allt að því óþarflega frjósamir, ekki nema 10 geldir, sem er óvanalega fátt, og 18 tvílembdir, þannig að þar verða 1,16 lömb fædd eftir ána. Þá verður allavega eitthvað til reiðu, til að skella undir einlemburnar :-)

Þetta var rosa gaman að sjá þetta, og frábært að hitta þær Ellu og Heiðu. Þær voru náttúrulega eldsprækar og sá ekki á þeim nein þreytumerki, þrátt fyrir mikið span um allt land að svala forvitni óþreyjufullra bænda eins og hér á Sölvabakka.

Síðan var virðisaukaskatturinn tekinn með trukki á sunnudaginn og virðist ætla að hafast fyrir morgundaginn. Set mér náttúrulega það markmið að færa þetta reglulega á næsta bókhaldstímabili.... (sem verður trúlega gleymt eftir morgundaginn...)

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Hejsan!

Vil benda á frétt á Húnahorninu um Svangrund – Ömmuhús. Annað nýnefni eru hinar eftirsóttu upplýsingar sem Anna Magga tók saman um hrossaræktina á Sölvabakka. Myndir af hrossunum eru væntanlegar síðar en það dregst nú e.t.v. fram um páska þar sem hirðljósmyndarinn er í útlöndum sem stendur og treystir sér ekki til að þekkja öll hrossin...

Frá Skáni er það helst að frétta að vindurinn er heldur napur þessa dagana, ekki síst þegar fréttir af sumarhitum berast frá klakanum, og öll hlý föt ferðalangsins eru í fatahreinsun sökum skorts á liðlegheitum hjá húsráðanda á gistiheimilinu (mér er ekki treyst fyrir þvottavélinni) :-/

Stórar breytingar eru annars ekki á dvöl útlagans frá því í síðustu færslu. Ennþá er eftir að prófa þó nokkuð af frosnu máltíðunum í kaupfélagsfrystinum en undirrituð hefur reyndar fundið einn stóran galla á neyslu þessa annars ágæta fóðurs. Mikil hætta er á að maður brenni sig í gómnum eftir upphitun þessháttar máltíðar, óljóst er hvort þetta muni stuðla að "betri" skánskum framburði á sænskunni.

Um helgina ætla ég að hoppa upp í lest og set stefnuna á ættarmót í Köben. Við frænkurnar Freyja, Aldís Rún og Sigríður Kristín ætlum að hittast.

Kveðja,
Jóna Finndís

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Frónbúinn

Hér á Fróni er líka kominn smá snjór, reyndar var nú hláka í gær, en tók svo aftur til við vetrarveður í nótt og morgun. Má því e.t.v. segja að hlákuna hafi tekið upp :-)

Það verður nú að segjast að Skánverjar standa Íslendingum heldur framar í framboði af frosnum mat í búðum en e.t.v. er þetta spurning um aðlögun að aðstæðum á hverjum stað. Hér heima geta menn t.d. nær allan veturinn leyst þetta vandamál á annan hátt, einfaldlega með því að elda ríflega, setja matinn á diska (eða plastbakka ef vill), setja út fyrir dyr og taka hann inn eftir þörfum. Eina sem þarf að hafa í huga, er vörn gegn hundum, köttum og músum í nágrenninu.... Nú svo ef gerir skyndilega asahláku, þá þarf náttúrulega að bregðast skjótt við, taka allt góssið inn og blása til stórveislu. Svona hafa nú þjóðirnar þróast á mismunandi vegu.

Annars er fátt að frétta eins og er, nú er aðal tilhlökkunarefnið það að í næstu viku ætlar Sprellan að koma í heimsókn og telja fósturvísa til að svala forvitni ábúenda um hvað sé nú von á mörgum lömbum í vor. Það verður gríðarlega spennandi og er hér með lofað dagbókarskrifum um niðurstöðurnar þegar þær liggja fyrir.

Bestu kveðjur
Anna Magga

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Útlaginn

Svíar fá stóran plús fyrir að vera flinkir í að frysta heilu máltíðirnar. Í “kaupfélaginu” telst mér svo til að það séu til a.m.k. 30 mismunandi frosnar tegundir og þarf ég því ekki að hafa áhyggjur á einhæfu mataræði þennan mánuðinn :-)

Snjórinn er kominn á Skáni, það gerist nú ekki svo oft, og enn sjaldnar að hann breytist ekki í slabb samdægur sem rennur sama í polla og ratar varla ofan í niðurföllin. Það væri nú einfaldara ef hann hyrfi bara beint upp í himininn aftur, þaðan sem hann kom. Hvaðan er sossum þetta orðatiltæki um að “snjóinn taki upp” eiginlega komið. Morguninn eftir mikla snjóhúsagerð fyrir mörgum árum á Sölvabakka sagði mamma mér að snjóinn hefði tekið upp, skelfd en líka dálítið spennt hugsaði ég um hvað hefði þá eiginlega orðið um dótið sem í snjóhúsinu var, hvort það hefði þá ekki fylgt með...

En burtséð frá snjónum sem vissulega lýsir upp annars gráa dagana hérna, þá er fátt í fréttum af útlaganum. Hún situr sem fastast við yfir bókum og við tölvuna dægrin löng, og apar eftir auglýsingum í sjónvarpinu á kvöldin til að æfa sig í sænskunni!

Kveðja,
Jóna Finndís

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Þorrablót

Þá hefur Þorra verið blótað á hefðbundinn hátt á hreppaþorrablótinu árvissa á Blönduósi. Er það mál manna að afar vel hafi tekist til við allan undirbúining og sjálft blótið varð með eindæmum skemmtilegt, enda ekki við öðru að búast þar sem ekki ómerkara fólk en Fríða systir og Jón mágur í blótsnefndinni. Ábúendur á Sölvabakka fengu sinn skerf af gríninu og stendur til að leita ríkulegra hefnda að ári, þar sem við munum nú vera lent í þorrablótsnefnd fyrir næsta ár. Verður penninn því vel nýttur á árinu til að punkta niður kátlega atburði. Leikur grunur á að Jóna Finndís óttist að verða skotspónn slíkrar fréttamennsku og mun hún af þeim sökum hafa flúið til Svíþjóðar um stund til að reyna að forðast vökul augu fréttahaukanna.

Þegar blótið var búið var haldið í fjárhúsin á Sölvabakka og fénu gefið, til að þess þyrfti ekki snemma morguninn eftir en hefð hefur skapast fyrir slíku undanfarin ár. Tókst það bærilega þrátt fyrir allnokkra ölvun og mun fénu almennt ekki hafa orðið meint af, og m.a.s. virtust smálömbin óvanalega hress og kát daginn eftir. Kann að vera að einhver bjórlögg hafi skolast með niður í vatnsdallinn þegar verið var að brynna.....

Bestu kveðjur
Anna Magga

This page is powered by Blogger. Isn't yours?