miðvikudagur, mars 29, 2006

Sölvabakka skvísan



"Það er kominn fullkominn púki í þessa dýrðar veröld" segir Sævar.
Litla Sölvabakka skvísan kom í heiminn kl. 00:12 í nótt, 29. mars.
Hún er 53 cm og 4086 gr.

Þeim mæðgum heilsast báðum vel :-)

þriðjudagur, mars 21, 2006

Nýja hesthúsið tekið í notkun




Á bakkanum reka hver stórtíðindin önnur þessa dagana. Það kom að því að hesthúsið fína kláraðist og var það tekið í notkun við hátíðlega athöfn á sunnudaginn síðasta. Snerpa og Röst fengu að vera fyrstar til að vígja húsið og virtist þeim bara líka það býsna vel. Svo voru rekin heim hross og tekin inn sex hross til viðbótar svo nú er orðið þéttskipaður hestafloti á húsi.

Að aflokinni inntöku í nýja húsið var boðið upp á vöfflur með súkkulaði og rjóma fyrir þá sem sáu sér fært að mæta. Himmi var þar að sjálfsögðu fremstur í flokki ásamt heimilisfólki (eða er kannski réttast að segja öðru heimilisfólki....)

Síðan má nú ekki gleyma því að í dag er stórafmæli í fjölskyldunni. Kristmundur Elías er orðinn fjögurra ára og er búinn að bjóða í mikla veislu í tilefni dagsins seinni partinn í dag.

laugardagur, mars 18, 2006

Stórsýning hestamanna!!!!!!




Glæsileg stórsýning hestamanna í Húnavatnssýslum er afstaðin og tókst aldeilis glimrandi vel. Sævar skeiðlagði Snerpu hennar Jónu Finndísar með snilldarbrag og sat eigandinn stolt og fylgdist með af áhorfendabekknum, enda búin að keyra alla leið frá Reykjavík til að sjá þau. Sævar og Hreimur fóru auk þess á kostum í fótboltaleik og má Beckham fara að passa plássið sitt. Sýningin öll var hin glæsilegasta og Húnvetnskum hestamönnum til sóma.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Nýtt hesthús á bakkanum...





Yfir mér hefur ríkt blogglægð að undanförnu. Trúlega er þetta í einhverju samhengi við lægðirnar sem gengið hafa yfir bakkann í vetur með tilheyrandi hlýindum og vorveðri. Rétt er þó að reyna að bæta úr þessu nú með hækkandi sól.

Helst í fréttum er að húsbóndinn er nú ásamt Himma, Sirid og fleiri að verða búinn að leggja lokahönd á nýja hesthúsið sem kemur í staðinn fyrir gamla kálfafjósið sem eflaust einhverjir kannast við og hafði nú í seinni tíð þjónað tilgangi geymslu fyrir ýmsa nytsamlega sem ónytsamlega hluti. Stefnt er á að taka inn í það um næstu helgi, en það eina sem eftir er að gera er að leggja gúmmí á gólfið og er það vonandi væntanlegt að sunnan í vikunni. Er þetta búin að vera töluvert löng fæðing en vel þess virði þegar litið er yfir verkið.

Annars er búið að telja fósturvísa í ánum og virðist frjósemin ætla að vera nokkuð betri en í fyrra sem er að sjálfsögðu hið besta mál. Sprella og Heiða gerðu góða ferð hér norður yfir heiðar og töldu í fjölmörgum Húnvetnskum ám beggja vegna Gljúfurár.

Svo ætlar húsbóndinn að taka þátt í Stórsýningu Húnvetnskra hestamanna á laugardagskvöldið í samfylgd Snerpu hennar Jónu Finndísar. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því.

En það er víst best að blogga ekki yfir sig eftir svona langt hlé og læt ég því staðar numið að sinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?