fimmtudagur, september 29, 2005

Botna komin heim !!!

Þá eru nú göngur og réttir að mestu leyti afstaðnar og fóru þær fram með ró og spekt svo framarlega sem því var við komið, en annars með öðrum hætti. Heljar mikið gistiheimili var sett á fót á bakkanum eins og vant er og glatt á hjalla eins og vera ber.

Botna mín er alheimt og urðu miklir fagnaðarfundir hjá okkur æskuvinkonunum (altént hennar æsku) í Selárrétt. Hún þráast við að vera kollótt eins og bróðir hennar og hálfsystir og mun kollótti stofninn á Sölvabakka því endurreistur á yfirstandandi hausti, þó svo bróðirinn muni einungis fá að fylgjast með því úr öðrum víddum.

Við Sævar gerðum mikla hrútareisu um síðustu helgi, fórum alla leið norður í Öxarfjörð, Sléttu og Þistilfjörð að skoða “þingeysk vaxtaræktartröll” eins og einn góðbóndinn orðaði það. Rétt að taka það fram að hér er sum sé átt við sauðfé í þessu samhengi eins skemmtilega og það kemur út. Þar var margt kostulegra gripa og fengum við alveg gullfallegan hrút á Presthólum í Núpasveit (Öxarfirði), undan Hýr (Týssyni) sem væntanlega hefur ekki borið nafn með rentu, sbr. afkvæmið. Hann var stigaður upp á alls 86 stig og á allan hátt stórglæsileg kind. Að sjálfsögðu var hann nefndur í höfuðið á henni Láru okkar (sem er sem sagt frá Presthólum) og heitir Lárus. Við fórum síðan á hrútamarkað á Raufarhöfn þar sem var samansafn af glæsilegum hrútum til sölu og festum þar fleiri hrúta handa Húnvetningum sem sáu sér því miður þeirra vegna, ekki fært að mæta sjálfir. Þetta var mikil snilldarsamkoma, tókst vel í alla staði og eiga heimamenn mikið hrós skilið fyrir það.

Þó þeir tækju ekki þátt í markaðnum, var náttúrulega ekki hægt að skilja Þistlinga alveg útundan svo við skruppum á nokkra bæi þar og völdum nokkra góða gripi handa fleiri Húnvetningum.

Læt þetta duga í bili.....

p.s. Til hamingju með afmælið Aldís

þriðjudagur, september 06, 2005

Það haustar að í Holtinu

Já haustið er komið hér í Grafarholtinu, farfuglarnir tveir komnir hingað til mín eftir sumardvöl undir Fjöllunum og nú tekur við ströng dagskrá skipulagðra kvöldmáltíða ólíkt sumardagskránni þar sem skyr.is var efst á dagskrá flest kvöld. Í okkur er líka farinn að færast gangnahugur, nýr skærgulur pollagalli og tvær talstöðvar búnar að bætast á eignaskrána síðustu daga. Menntaskólaskvísurnar munu svo hlaupa um og smala Eyjafjöllin núna um næstu helgi á meðan ég held í norðurátt og rifja upp gömul kynni af misjafnlega samningsþýðum Húnvetnskum og Skagfirskum skjátum.



Í síðustu viku fór ég annars á norðurslóðir í Svíþjóð, norður í land Samanna. Ekki fann ég nú neinar kindur að smala þar en hreindýrin skokkuðu um skóginn. Ekki fer þó sögum af því hversu hvort léttfættir smalar hafi í við þau, enda leist mér þannig á að snúið gæti verið að halda áttum inn í skóginum í miklum eltingarleikjum. Þeim ku vera smalað með þyrlum um þetta leyti árs, niður úr fjöllunum fyrir veturinn. Eftir langar setur undir fyrirlestrum um norðurslóða vatnafræði var slegið á “léttari” strengi" í sauna og í íþróttakeppni með víkinga-yfirbragði, þar sem ég sló í gegn með axarkasti, sem fólst í því að sveifla stórri exi yfir höfuðið á sér, kasta henni áfram og vona að hún myndi nú stefna í rétta átt og höggvast í trjádrumbinn sem stóð í tveggja metra hæð í 15 metra fjarlægð... Það var ekki að sökum að spyrja, ég hitti auðvitað í mark og hef hug á að leggja íþróttina fyrir mig. Er bara ekki búin að finna hentugt æfingasvæði hérna í Grafarholtinu!

föstudagur, september 02, 2005

Endalok alls....

...nei nei, ekki er það nú svo svart. Eiginlega átti þessi pistill að vera á jákvæðu nótunum, því það er svo mörgu lokið sem löngu var tímabært. Heyskap er t.a.m. lokið og hafðist það af á þriðjudaginn síðasta. Náðist þá háin í prýðis þurrki sem dugði fram yfir lok heyskapar á Sölvabakka og Bakkakoti en svo kom líka þvílík dómadags rigningardemba að slíkt og annað eins hefur vart sést á bakkanum.

Það er búið að keyra út öllum skít úr fjárhúskjallaranum og var þar mikill haugur á ferðinni, enda tveggja ára birgðir. Baldvin á Tjörn lagði sitt heldur betur til málanna, skaffaði sjálfan sig, bobcat og tvo dreifara til verksins og svo var bara keyrt í akkorði eins og drossíurnar drógu. Hafðist verkið af á mettíma eða einum fullorðnum degi og svo tæplega fram að hádegi.

Nú og svo er búið að skila virðisaukaskattinum, ekki tókst nú húsfreyju að vera sérlega tímanlega í því þetta skiptið þrátt fyrir fögur fyrirheit, en skilaði þó rétt tæpum sólarhring fyrir lokafrest, þannig að þetta stefndi ekki í óefni. Meðan á vsk-færslum stóð var húsbóndinn gerður útlægur úr eldhúsinu enda eldhúsborðið undirlagt af vak-nótum, tölvu, eplakjörnum og hálftómum/hálffullum kaffibollum.

Svo er húsbóndinn búinn að gera atlögu að girðingunni utan um kartöflugarðinn en hrútar þeir sem kenna sig við bæinn hafa gert sig óþarflega heimankomna þar í sumar, þrátt fyrir fyrirmæli um að halda sig annars staðar.

Það styttist heldur í göngur og er rétt vika í að það stúss hefjist fyrir alvöru. Ekki er laust við að gæti tilhlökkunar hjá ábúendum að sjá blessaðar rollurnar og afkvæmi þeirra snúa aftur í heimahagana. Sér í lagi verður nú spennandi að sjá hana Botnu litlu aftur, en gera má ráð fyrir því að hún hafi stækkað óhemju í sumar og sé nú orðin allra gimbra föngulegust.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?