mánudagur, janúar 31, 2005

Haustverkum lokið.... betra seint en aldrei

Þá er helgin liðin og margt búið að gerast á bakkanum. Í tilefni mikillar hláku var afráðið að nýta helgina til að ljúka þeim verkum sem áttu að klárast fyrir snjóa. Má því segja að þeim hafi verið lokið milli snjóa....

Til verkanna var fengið liðsafl sunnan úr höfuðborginni, nefnilega þau Siggi Elvar, bróðir Sævars og Erla frænka þeirra bræðra. Var hafist handa “árla” morguns á laugardegi og var langur verkefnalisti fyrir daginn. Byrjað var á að taka til fyrir framan bæinn, þar sem úr kafi hafði komið alls kyns timburrusl síðan skipt var um dyr ásamt fleiru í forstofunni rétt fyrir aukna snjóa. Þar næst var tekið til við að koma sláttuvélinni inn, en hún hafði ekki komist inn fyrr sökum anna fyrst og snjóa síðan. Tókst húsbóndanum að koma henni inn aftan í Fergusoninum, þrátt fyrir margítrekaðar staðhæfingar húsmóðurinnar um að á þennan hátt væri lífsins ómögulegt að koma þessum tveimur tækjum inn í einu lagi. Sá hátturinn hefur nefnilega áður verið hafður á að festa vélina niður á bretti, hífa upp þann hluta sem festur er í beislið (í rauninni setja hana í flutningsstöðu) og flytja síðan brettið inn með rúllugreip. Taldi húsmóðirin að þar sem að henni ásamt fleirum hefði ekki tekist að koma sláttuvélinni inn aftan í vélinni, en sú aðgerð takmarkast verulega af hæð og breidd dyranna ásamt af hæð og breidd dráttavélar + sláttuvélar, þá myndi þetta vera ógerlegt með öllu. Þegar hér var komið sögu, var nú hlaupin talsverður þrái í húsbóndann og tókst honum með ýmsum ráðum og tilfæringum, að koma þessum tveimur tækjum inn samföstum og á hann, þó sárt sé frá að segja, mikinn heiður skilinn fyrir það.

Að svo búnu var haldið til hádegisverðar og þess næst í fjárhúsin. Þar var endurbyggð milligerð milli tveggja króa sem árásargjarnir hrútar höfðu náð að brjóta niður rétt eftir þrettándann, húsmóðurinni til mikillar armæðu, þar sem hún var þá að gefa í hendingskasti, orðin allt of sein á kvöldskemmtun karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps. Þá var tekið til við að loka hlöðugötunum, taka niður skjólborðin á matarafæribandinu og festa þau rammlega.

Þegar hér var komið sögu var kominn tími á kaffi og hafði það frést til næstu bæja, því rétt í því komu Kristján og Angela, Guðmundur Þór og Íris ríðandi ofan úr Lækjardal. Var þá tekið til við pönnukökubakstur og hefur steikingarlyktina, trúlega lagt út um gluggann, því fljótlega tók að snjóa að fleira fólk, s.s. mömmu, Jón og Fríðu, ásamt Helgu Björgu og Erlu (dóttur Gunnu Sigvalda og Jóns Eiríks, sem var í heimsókn) og Þormar. Þegar allir voru búnir að belgja sig út af kaffi og pönnukökum, var farið að flytja dálítið fyrir mömmu og síðan farið í fjárhúsin að gefa.

Á sunnudeginum komum við heyhleðsluvagninum síðan í skjól, fluttum dálítið meira fyrir mömmu, gerðum smá skurk í hesthúsinu og fleira minniháttar. Þessi helgi var sem sagt með eindæmum góð í alla staði og margt sem komst í verk, þótt fyrr hefði verið.

Ekki meira í bili.
Bestu kveðjur af bakkanum
Anna Magga

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Í Drangshlíðardal var verið að steypa hluta af kálfafjósinu um helgina. Fréttaritari brá sér á staðinn til að þykjast gera smá gagn og tók nokkrar myndir. Skrapp svo í fjárhús og fjós með húsráðendum, þurfti að greiða heimskuskatt í spurningaspili og var dæmd til að reikna 7. bekkjar stærðfræði með einni heimasætunni.

Myndir af steypu, meiri steypu, ungum bónda, yngstu heimasætunni.

Ég labbaði svo upp á Móskarðshnjúka áðan. Með þremur skemmtilegum vinnufélögum, mannbrodda í tösku og ísöxi í hendi. Við komumst að vísu ekki alveg upp á topp og notuðum ekki mannbroddana, en það var rosalega gaman að húrra niður allar brekkurnar á heimleiðinni... og mikið er gott að skríða upp í sófa með teppi og bjór eftir svona puð :-)

Góðan og blessaðan daginn

Úr sveitinni er svo sem hvorki margt né merkilegt að frétta í dag, en þó rétt að tæpa á því helsta, þó ekki sé nema bara í tilefni þess að hafa svona góða dagbók til að tjá sig í. Helgin fór í hefðbundið stúss, að hluta í fjárhúsunum, en við komum því loksins í verk að skrifa upp í krónum hvaða ær fengu við hvaða hrút og skipta á hrútum milli króa ef svo illa hefði viljað til að einhver þeirra hefði ekki sinnt sínum spúsum í þetta skiptið.

Veðrið var yndislegt um helgina og hefði verið tilvalið til útreiða, hefðu einhver hross verið komin á bás, en svo er ekki. Notuðum samt helgina til þess að vinna aðeins í þeim málum, sem sagt að græja hesthúsið fyrir veturinn. Það var nefnilega tekin um það ákvörðun að lengja milligerðirnar alveg niður á gólf og loka jafnframt undir stallana, til að lágmarka hættuna á því að þessar blessuðu skepnur slasi sig eins og þeim einum er lagið.

Vaskó er í því þessa dagana að upgötva gríðarlega færni sína sem smalahundur og rýkur í þeim tilgangi öðru hverju suður í hólf, þar sem útirollurnar eru og smalar þeim út í horn við lítinn fögnuð eigandans og annarra ábúenda. Til stendur að koma þessum rollum upp í Lækjardal við fyrsta tækifæri, svo Vaskó geti frestað frekari sýningum á þessu sviði til næsta vors. Mun hann þá hafa það sem eftir lifir veturs til æfinga og hefur fengið loforð fyrir afnotum af hrafnastofni Enghlíðinga til þess gjörnings.

Ekki meira að sinni, læt vita þegar fleiri fréttir verða til.
Anna Magga

föstudagur, janúar 14, 2005

Góðan og blessaðan daginn

Nú hefur ýmislegt gerst á bakkanum síðustu daga. Eins og fram er komið, er mamma flutt í Svangrund - ömmuhús, og svaf hún þar fyrstu nóttina á sunnudaginn síðasta. Innilega til hamingju með það mamma mín. Við Sævar erum byrjuð að taka upp úr kössum og raða upp í skápa sem er verulega spennandi, næstum eins og við séum að fá þetta dót allt aftur, þar eð við vorum búin að gleyma að við ættum helling af þessu :-) sniðugt ekki satt.

Við erum búin að endurheimta strokukindurnar okkar, sem stungu af frá rúllu á heimatúninu um daginn. Við vorum nú farin að hafa nettar áhyggjur af þeim en um helgina gafst bæði tími og veður til að athuga með þær og fundust þær niðri í Ósvík. Þær báru sig nú síður en svo illa og töldu litla ástæðu til að halda heim á leið en með fortölum, tókst þó að telja þær á það enda vaskur hópur smalamanna á ferð. Himmi fór fyrir þær á snjósleða, við mamma stóðum í fyrirstöðu, Sævar tróð slóð á vélinni fyrir þær og Trítla sat inni í vél og stjórnaði talstöðvasamskiptum.

Á mánudaginn fengum við síðan óvænta heimsókn, en þá komu níu hross röltandi eftir Neðribyggðarveginum. Eftir talsverða eftirgrennslan, kom í ljós að þarna voru á ferðinni hross Ingimars Pálssonar og Frímanns sem höfðu verið í haustvist uppi á Þverá. Höfðu þau ákveðið að skoða sveitina aðeins nánar og leiddi Mannskaða Rauður hópinn heim á Sölvabakka, en þar kannaðist hann vel við sig og hefði sjálfsagt getað hugsað sér að dvelja þar eitthvað lengur.

Ekki meira að sinni.... bestu kveðjur

mánudagur, janúar 10, 2005

Til hamingju mamma!
Með nýja húsið og allt sem í því er...
Ég vona að þú hafir sofið alveg sérlega vel þar í nótt :-)

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Passið ykkur á strætó 112, hann fer skrítnar leiðir. Allavega ekkert svipaða leið og ég hélt í morgun að hann ætti að fara. Þegar ég loks slapp úr strætó labbaði ég bara í vinnunna, sem var reyndar bara fínt af því að ég var í hlýjum sokkum, með húfu og í ullarvettlingum!

Eða á kannski bara að skrifa sveitasögur hérna?

mánudagur, janúar 03, 2005

Bara frábært

Góðan daginn
Þá er komið að því, Jóna Finndís systir er búin að setja upp blogg fyrir Sölvabakka síðuna, svo nú er bara að setjast við skriftir. Ærnar tóku áramótunum með ró og það gerðu hrossin sömuleiðis, þar sem sprengingar sáust fremur takmarkað á bakkanum vegna snjókomu. Þau bíða þó ennþá spennt eftir þrettándanum, en þá verður að vanda sprengt við Vorboðabrennuna ef veður lofar. Ærnar eru vonandi flestar að verða fengnar, hvort sem er með hefðbundnum hætti eða með sæðingum, sem voru stundaðar af krafti hér rétt fyrir jólin. Rétt að láta eina vísu fylgja með því tilefni, en hún ku vera ort af einum hrút Jakobs stórbónda á Hóli í Svartárdal við slíkt tækifæri.

Mér um nautnir neita
niðrun kvelur mig.
Því ég var látinn leita
og lykta fyrir þig.

Læt þessari frumraun minni á bloggi lokið að sinni en er vís með að gera fleiri tilraunir í sömu átt fljótlega aftur.

Bestu kveðjur
Anna Magga

Jibbíííííí, dagbók Sölvabakka er komin á netið

Nú er bara að skrifa og skrifa...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?