miðvikudagur, janúar 25, 2006

Brrrr, það var kalt í Riga!

Já það var 19-23 stiga frost í Riga en ég komst heil á húfi aftur heim, ekki síst dúnúlpunni góðu að þakka, svo og lopasokkunum, sem voru svo notaðir á heimleiðinni til að passa upp á að brennivínsflöskurnar kæmust heilar á leiðarenda.

Reyndar var nú talsverð spenna tengd Kastrup flugvelli á báðum leiðum, á leiðinni út þá var hann fullur af þreyttu og pirruðu fólki sem var búið að vera þar óþarflega lengi vegna ósamvinnuþýðra veðurguða. Á heimleiðinni bárust þær fréttir að leiðinda flensa herjaði á danska flugmenn. Sem betur fer borða Lettneskir flugmenn mikið af feitu keti og voru því fílhraustir, þeir skiluðu mér á Kastrup í veginn fyrlr íslenska fararskjótann.

Já, í Lettlandi er mikið af feitu keti á boðstólnum, það er brasað á ýmsa vegu, vel útilátið og bragðast ljómandi vel. Það voru reyndar ekki allir í hópnum kátir með viðbitið sem líktist meira svínafitu en mjólkurafurð. Hins vegar búa þeir til ljúffengar pönnukökur (svínafitulitlar, held ég) með ýmsum fyllingum og ég mæli með einni tegundinni sem var djúpsteikt pönnukaka fyllt með kornflexi að utan og brösuðum banönum innan í. Reyndar var kakóið sem ég fékk með þessum herlegheitum í þykkari kantinum. Það var meira eins og kakóbúðingur, það hefði eiginlega passað ágætlega að setja kornflex út í það líka og éta með matskeið.

En já, það var bara ljómandi gaman í Lettlandi en næst þegar ég fer þangað þá verður það vonandi á hlýrri helmingi ársins.

föstudagur, janúar 20, 2006

Ég frétti í morgun að það væri 28 stiga frost í Riga.
Ég er að fljúga þangað á morgun.
Ég keypti dúnúlpu í dag.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir...

Ég held að það sé hér með sannað að skrýtnasti köttur í heimi er búsettur á bakkanum, nánar tiltekið litla kisa (man hreinlega ekki hvort hún hefur hlotið eitthvað annað nafn....)

Hún átti mikla ævintýrahelgi og bíður nú bara eftir barnabörnunum til að segja sínar farir ekki sléttar. Þetta hófst nú allt með því að húsfreyjan var svo grimm að ákveða það að þar sem kötturinn væri ekki kominn út úr hlöðunni þegar hún ætlaði heim úr fjárhúsunum á laugardeginum, fengi hann bara að dúsa þar yfir nóttina. Ekki það að það væsi svo sem sérstaklega um hana þar. Þegar húsfreyjan mætir síðan á sunnudagsmorguninn, heyrir hún ámátlegt kattarvæl úr norðurhlöðunni. Litlakisa hafði þá fundið sér það til dundurs um nóttina að fara í landkönnun eða öllu heldur hlöðukönnun en láðist að athuga það að þú hún kæmist hæglega upp í gatið milli hlaðanna að sunnanverðu, þá var öllu minna hey í norðurhlöðunni og henni því lífsins ómögulegt að komast til baka þeim megin frá. Nú voru góð ráð dýr... Húsfreyjan sá nú örlitlar aumur á kisu litlu og sótti fyrir hana planka sem hún ætti að geta klifrað eftir, upp í gatið og lét þar við sitja, fannst að hún ætti nú að geta bjargað sér úr því.

Ekki fannst kisu nú þetta vera vænleg leið og taldi hún sig vera of lofthrædda til að feta plankann og kallaði nú heldur hærra og óskaði eftir stiga þarna niður. Húsfreyjan hélt þó grimmd sinni til streitu, kvaddi kisu og sagði henni að koma sér þarna upp fyrir kvöldgjöfina, þá skyldi hún fá matarbita.

Líður nú að kvöldi og enn kemur húsfreyja í fjárhúsin. Hefur nú heldur bætt í vælið úr norðurhlöðunni og er kominn sultartónn í litlukisu. Enn situr húsfreyja þó við sinn keip, tilkynnir litlu kisu að hún sé fullfær um að bjarga sér úr klípunni sjálf. Skilja svo leiðir.

Á mánudagsmorgun kemur húsfreyja enn í fjárhúsin og er nú búin að hafa hálfgert samviskubit yfir kisugreyinu. Þá er ekki að spyrja að þeirri stuttu að hún hefur í mótmælaskyni við húsfreyju, fundið aðra leið og er nú komin upp á bitann sem færir dreifikerfið milli hlaða. Hefur þá að öllum líkindum komist upp norðurstafninn á hlöðunni, þar sem þar er timburgrind og þá leið upp á bitann. Er nú kominn ákveðinn sigurtónn í vælið, sem þó heldur áfram að berast til eyrna húsfreyju, en sem áður greinir, frá nýjum stað. Finnst kisu augljóslega heldur hátt að stökkva niður í heystabbann af bitanum. Er nú húsfreyju nóg boðið og tilkynnir hún kisu hátt og skýrt að þetta séu nú ekki nema um tveir metrar og stabbinn afar mjúkur að lenda í. Heldur húsfreyja því sínu striki og klárar að gefa. Þegar hún er búin að gefa á síðasta garðann fer hún þó að gá að kisu og finnst heldur hafa rénað vælið. Kemur þá í ljós að kisa er horfin af bitanum og sést heldur ekki bóla á henni í hvorugri hlöðunni. Renna nú tvær grímur á húsfreyju sem fer að sjá eftir að hafa ekki hjálpað litla skinninu. Berst þá ekki allt í einu kunnuglegt væl henni til eyrna en að þessu sinni utan að. Hún rýkur til og opnar dyrnar og inn trítlar litlakisa, heldur roggin á svip, tilkynnir húsfreyju að hún hafi farið sínar eigin leiðir og sé mætt í matinn. Forviða heilsar húsfreyja kisu og bætir á matardallinn sem kisa þáði með þökkum. Er það niðurstaða húsfreyju að annað hvort hafi kisa fylgta bitanum út fyrir hlöðuvegg og stokkið þar niður (líklega a.m.k. 6-8 metra) eða komist upp um strompinn og húrrað þar niður eftir hlöðuþakinu og síðan fjárhúsaþakinu.... sem sagt í stað þess að stökkva þessa tvo metra niður í mjúkan heystabbann.....

.....ef þetta er ekki að fara sínar eigin leiðir, þá veit ég ekki hvað..........

This page is powered by Blogger. Isn't yours?