fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar

Það lítur út fyrir gott sumar, ekki nóg með að vetur og sumar hafi frosið saman, heldur skörtuðu norðurljósin sínu fegursta í gærkvöldi, eins og húsfreyjan varð vitni að þegar hún rölti bæjarleið eftir saumaklúbb í Svangrund. Enn bólar ekkert á lömbum, sem þó gætu farið að stinga út hausnum hvað úr hverju, þar sem síðheimtur hafa verið með eindæmum drjúgar í vetur.

Það fækkar því miður á bakkanum á morgun, því Marie okkar elskuleg hefur nú fengið starf í Namibíu og heldur af stað í fyrramálið. Það verður mikill söknuður að sjá á eftir henni, enda hefur hún staðið sig alveg frábærlega hér hjá okkur.

Í tilefni þess að hún er að kveðja, fórum við mæðgur með hana í bíltúr í dag og fórum hring á landareigninni, með viðkomu í Laxárgilinu, Ósvík og Stekkjarvík. Læt fylgja nokkrar myndir frá ferðalaginu.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?