sunnudagur, nóvember 27, 2005

Fyrsti sunnudagur í aðventu
Set hér inn eina mynd af aðventukransi húsfreyjunnar, sem hún er ansi montin af. Hann er ásamt piparkökuhúsi afrakstur gærdagsins, sem var mikill föndurdagur í Svangrund. Komu þar saman þrjár mágkonur í Hrauns fjölskyldunni ásamt börnum og fékk litla systir á Sölvabakka að fljóta með. Þar var heldur betur glatt á hjalla, Fríða var búin að baka fjögur piparkökuhús, sem voru sett saman og skreytt af miklu kappi, auk þess sem aðventukransar og kertaskreytingar spruttu fram svo töfrum var líkast.

Annars var mikil gleði á bakkanum nú að morgni þessa fyrsta sunnudags í aðventu, því þegar húsráðendur komu suður að fjárhúsum, blöstu þar við tveir rosknir hrútpjakkar, í góðum holdum, sem taldir höfðu verið af í haust og ekki fundist þrátt fyrir ítrekaðar leitir. Gáfu þeir ekkert uppi um verustað sinn þennan tíma, en voru fegnir að komast inn á töðufylltan garðann, þó frekar hefðu þeir eflaust kosið þar annan félagsskap en í hrútastíunni.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Úr amstri dagsins

Mér datt í hug um daginn að fá mér te, sem ekki er nú í frásögur færandi (fæ mér oft te)..... nema hvað. Ég sem sagt set vatn í ketilinn og hita það, helli svo í bollann og vel mér sítrónute (ekkert annað í boði). Halla mér þvínæst aftur í sætinu og bragða varlega á innihaldinu.... forvondur andskoti!!!! Ég fer nú eitthvað að efast um gæði tepokans, helli úr bollanum og laga nýtt. Jafn skrambi vont.... Ég ákvað þá að líklega þætti mér þetta sítrónute bara alls ekkert gott en þar sem ekkert annað te var til á skrifstofunni, ákvað ég að þvæla því í mig sem ég og gerði.

Löngu seinna þegar ég var að hugsa um eitthvað allt annað, þá fattaði ég.....
.....að ég setti hitaveituvatn í ketilinn!!!!

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Elsku bíllinn minn blái......

Ég er alltaf að verða ánægðari og ánægðari með jeppann okkar. Á leiðinni heim úr Reykjavík á sunnudagskvöldið, þá komst ég að því að hann á sama afmælisdag og Jóna Finndís, reyndar aðeins yngri en hann kom sem sagt á götuna 7. nóvember 1991. Við þetta bætist síðan að áður hafði ég verið sérlega ánægð með hann þar sem númerið á honum er ZV 901 en Bót hans Sævars sem er undan Drottningu minni og Prúð frá Lækjarhúsum og ég gaf honum fyrir nokkuð löngu, er einmitt nr. 901. Það er bara allt sem mælir með þessum bíl :)

Sumir eru ánægðir með bílana sína af því að þeir eru af einhverri sérstakri tegund, eða vegna hestaflafjölda, dekkjastærðar o.s.frv. en ég hef mínar eigin ástæður....

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Til hamingju með afmælið Bjarney!!

Hún Bjarney Ragnhildur á afmæli í dag og óskum við henni innilega til hamingju með það. Þar með er afmælisvertíð sporðdrekasystranna á enda.

Bestu kveðjur

mánudagur, nóvember 14, 2005

Jólahreingerningin formlega hafin!!!

Það tilkynnist hér með að jólahreingerning er hafin á bakkanum. Húsfreyjan hefur verið í svo miklum jólahugleiðingum síðustu vikur að henni var ekki til setunnar boðið lengur og hóf undirbúning því formlega um helgina.

Byrjað var á eldhússkápunum og búrinu, svo nú reynir á óreiðustjórnina að halda því þokkalegu a.m.k. fram yfir jól og svo náttúrulega úthaldið að halda verkinu áfram fram að jólum.

Í fjárhúsunum er flest að verða klárt fyrir inntekt og rúning fullorðnu ánna, svo gert er ráð fyrir að það verði gert um miðbik vikunnar.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Til hamingju með afmælið Fríða !!!!

Hún Fríða á afmæli í dag, rétt rúmlega þrítug og óskum við henni innilega til hamingju með það. Það er augljóst að afmælisvertíð sporðdrekanna í fjölskyldunni er upprunninn....

Bestu kveðjur

mánudagur, nóvember 07, 2005

Til hamingju með afmælið Jóna Finndís

Innilega til hamingju með afmælið Jóna Finndís!!!!

Allt rólegt á bakkanum eftir ljómandi góða helgi, með heilmikilli kjötvinnslu, kjötáti, tiltekt í vélaskemmu og frágangi véla þar inn ásamt ýmsu fleiru.

Bestu kveðjur
Anna Magga

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Klukk


Þar sem við Jóna Finndís og Anna Magga vorum báðar í sama landi og m.a.s. báðar á Sölvabakka þessa helgina, ákváðum við að axla ábyrgð á klukki okkar frá Sigríði Kristínu frænku okkar, þó nokkuð sé liðið síðan hún klukkaði okkur. Hér koma sum sé nokkrar staðreyndir um okkur systur.

1. Við svörum nákvæmlega eins í síma (“Já hallóó”) og höfum svo líka rödd að Jóna Finndís hefur sjálf ruglast á okkur og talað við sjálfa sig í korter... hmmm löng saga.
2. Við komumst að því að við notum mikið sömu lykilorð á ýmsum vettvöngum. Þetta getur verið kostur, en tekur vissulega ákveðna leynd út úr leyni- forliðnum....
3. Það er til samheiti yfir okkur: “Litlu vargarnir”
4. Þegar við vorum minni (verðum alltaf litlar) kepptum við í sjónvarpsauglýsingaþekkingu, þ.e. hvor var fljótari að giska á hvað var verið að auglýsa (NB gilti ekki um skjáauglýsingar) Anna Magga náði gríðarlegu forskoti meðan Jóna Finndís var í Texas.
5. Við sendum hvor annarri kveðjur í gegnum Kassiópeiu, ódýrara en SMS.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Geymt en ekki gleymt...

Var að fatta það að ég gleymdi alveg að blogga um gestakomuna um þarsíðustu helgi eins og ég var þó búin að þrálofa. Bæti hér með úr því í skyndi.

Erla, Kristín Birna og Kristján Hróar kíktu sem sagt við um helgina, meðan Jói og pabbi hans ákváðu að kanna frekar félagsskap rjúpna í Skagafirði. Þeir litu þó við á heimleiðinni. Húsbóndinn hagaði sér engan veginn eins og hann væri heima hjá sér og sást því lítið heima við alla helgina. Það var aðkallandi fjáröflun sem heillaði meira, enda gert ráð fyrir einhverju lausafé í afréttinum. Að vísu urðu þær ferðir tæplega til fjár, en það er þó búið að leita.

Á meðan nýtti húsfreyjan þær stöllur og Kristján Hróar til hins ýtrasta við bússtörfin, við tókum til í vélaskemmunni á laugardeginum og rákum svo féð heim á sunnudeginum, til að fara í gegnum ærnar, taka frá til slátrunar og skrifa niður heimtur.

Þetta var sem sagt prýðis helgi, svo ekki sé meira sagt og náttúrulega synd og skömm að hafa ekki bloggað um hana fyrr. Helgin þar á eftir var viðburðaminni, en þá vorum við hjónaleysin ein heima í hríðarveðri og eyddum tímanum í löngu þarfa tiltekt í bænum. Settum reyndar niður nokkra hornstaura í blíðunni líka, en það var nú bara svona til að sýna að það væri ennþá október.

En núna um helgina koma sem sagt fleiri gestir, nú er von á Jónu Finndísi, Lilju Dögg og Erlu. Það verður án vafa glatt á hjalla og ég lofa hér með hugsanlegri bloggfærslu um það eftir helgi... nema Jóna Finndís verði fyrri til.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?