sunnudagur, nóvember 27, 2005

Fyrsti sunnudagur í aðventu




Set hér inn eina mynd af aðventukransi húsfreyjunnar, sem hún er ansi montin af. Hann er ásamt piparkökuhúsi afrakstur gærdagsins, sem var mikill föndurdagur í Svangrund. Komu þar saman þrjár mágkonur í Hrauns fjölskyldunni ásamt börnum og fékk litla systir á Sölvabakka að fljóta með. Þar var heldur betur glatt á hjalla, Fríða var búin að baka fjögur piparkökuhús, sem voru sett saman og skreytt af miklu kappi, auk þess sem aðventukransar og kertaskreytingar spruttu fram svo töfrum var líkast.

Annars var mikil gleði á bakkanum nú að morgni þessa fyrsta sunnudags í aðventu, því þegar húsráðendur komu suður að fjárhúsum, blöstu þar við tveir rosknir hrútpjakkar, í góðum holdum, sem taldir höfðu verið af í haust og ekki fundist þrátt fyrir ítrekaðar leitir. Gáfu þeir ekkert uppi um verustað sinn þennan tíma, en voru fegnir að komast inn á töðufylltan garðann, þó frekar hefðu þeir eflaust kosið þar annan félagsskap en í hrútastíunni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?