föstudagur, nóvember 04, 2005

Geymt en ekki gleymt...

Var að fatta það að ég gleymdi alveg að blogga um gestakomuna um þarsíðustu helgi eins og ég var þó búin að þrálofa. Bæti hér með úr því í skyndi.

Erla, Kristín Birna og Kristján Hróar kíktu sem sagt við um helgina, meðan Jói og pabbi hans ákváðu að kanna frekar félagsskap rjúpna í Skagafirði. Þeir litu þó við á heimleiðinni. Húsbóndinn hagaði sér engan veginn eins og hann væri heima hjá sér og sást því lítið heima við alla helgina. Það var aðkallandi fjáröflun sem heillaði meira, enda gert ráð fyrir einhverju lausafé í afréttinum. Að vísu urðu þær ferðir tæplega til fjár, en það er þó búið að leita.

Á meðan nýtti húsfreyjan þær stöllur og Kristján Hróar til hins ýtrasta við bússtörfin, við tókum til í vélaskemmunni á laugardeginum og rákum svo féð heim á sunnudeginum, til að fara í gegnum ærnar, taka frá til slátrunar og skrifa niður heimtur.

Þetta var sem sagt prýðis helgi, svo ekki sé meira sagt og náttúrulega synd og skömm að hafa ekki bloggað um hana fyrr. Helgin þar á eftir var viðburðaminni, en þá vorum við hjónaleysin ein heima í hríðarveðri og eyddum tímanum í löngu þarfa tiltekt í bænum. Settum reyndar niður nokkra hornstaura í blíðunni líka, en það var nú bara svona til að sýna að það væri ennþá október.

En núna um helgina koma sem sagt fleiri gestir, nú er von á Jónu Finndísi, Lilju Dögg og Erlu. Það verður án vafa glatt á hjalla og ég lofa hér með hugsanlegri bloggfærslu um það eftir helgi... nema Jóna Finndís verði fyrri til.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?