föstudagur, september 02, 2005

Endalok alls....

...nei nei, ekki er það nú svo svart. Eiginlega átti þessi pistill að vera á jákvæðu nótunum, því það er svo mörgu lokið sem löngu var tímabært. Heyskap er t.a.m. lokið og hafðist það af á þriðjudaginn síðasta. Náðist þá háin í prýðis þurrki sem dugði fram yfir lok heyskapar á Sölvabakka og Bakkakoti en svo kom líka þvílík dómadags rigningardemba að slíkt og annað eins hefur vart sést á bakkanum.

Það er búið að keyra út öllum skít úr fjárhúskjallaranum og var þar mikill haugur á ferðinni, enda tveggja ára birgðir. Baldvin á Tjörn lagði sitt heldur betur til málanna, skaffaði sjálfan sig, bobcat og tvo dreifara til verksins og svo var bara keyrt í akkorði eins og drossíurnar drógu. Hafðist verkið af á mettíma eða einum fullorðnum degi og svo tæplega fram að hádegi.

Nú og svo er búið að skila virðisaukaskattinum, ekki tókst nú húsfreyju að vera sérlega tímanlega í því þetta skiptið þrátt fyrir fögur fyrirheit, en skilaði þó rétt tæpum sólarhring fyrir lokafrest, þannig að þetta stefndi ekki í óefni. Meðan á vsk-færslum stóð var húsbóndinn gerður útlægur úr eldhúsinu enda eldhúsborðið undirlagt af vak-nótum, tölvu, eplakjörnum og hálftómum/hálffullum kaffibollum.

Svo er húsbóndinn búinn að gera atlögu að girðingunni utan um kartöflugarðinn en hrútar þeir sem kenna sig við bæinn hafa gert sig óþarflega heimankomna þar í sumar, þrátt fyrir fyrirmæli um að halda sig annars staðar.

Það styttist heldur í göngur og er rétt vika í að það stúss hefjist fyrir alvöru. Ekki er laust við að gæti tilhlökkunar hjá ábúendum að sjá blessaðar rollurnar og afkvæmi þeirra snúa aftur í heimahagana. Sér í lagi verður nú spennandi að sjá hana Botnu litlu aftur, en gera má ráð fyrir því að hún hafi stækkað óhemju í sumar og sé nú orðin allra gimbra föngulegust.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?