mánudagur, júní 11, 2007

Sauðburður og málning


Það er nú aldeilis margt búið að gerast í sveitinni frá síðustu bloggfærslu. Sauðburður hófst af fullum krafti upp úr 10. maí og náði hámarki í vikunni fyrir hvítasunnuhelgi. Báru þá rúmlega sextíu ær í tvo eða þrjá sólarhringa svo það mátti hafa sig allan við á köflum að stía í sundur. Sem betur fer var fjölmennt og góðmennt á bakkanum svo þetta gekk allt saman ljómandi vel. Kunnum við okkar einstaka sauðburðarliði allra bestu þakkir fyrir, það er rosalegur munur að hafa svona gott lið sem kann á öllum hlutum skil. Lömbin voru allajafna frísk, þau sem á annað borð voru lifandi (hin voru síður frísk). Allar kindur komnar út úr fjárhúsunum í góða veðrið sem hefur verið gnægð af síðustu daga. Anna Karlotta var orðin heldur betur bísperrt í fjárhúsunum, gekk þar um garða, klappaði ám og lömbum, skammaðist yfir þeim sem reyndu að stanga hana og kyssti og knúsaði lömbin sem verið var að marka. Hún gerði einnig tilraun til að brynna í eitt skiptið en loftaði ekki alveg fötunni sem steyptist yfir hana..... það þurfti þá ekki að baða þann daginn.

Svo um nýliðna helgi varð aldeilis andlitslyfting á útihúsunum á Sölvabakka. Til hefur staðið í líklega fjögur ár að mála veggina en það ekki komist í verk sökum skipulagsleysis húsbænda. Gerð var bragarbót á því, helgin ákveðin einhvern tímann í maí, málningin pöntuð og þess gætt vandlega að skoða ekki veðurspá síðustu daga á undan til að láta það nú ekki fæla sig frá verki. Síðan kom valið og vaskt lið, Bjarki með alla sína fjölskyldu, Kristín Birna með sína fjölskyldu (Erla meðtalin) Mamma, Fríða, Helga Björg og Addi að ógleymdu heimilisfólkinu sjálfu og Ellen au pair stúlkunni okkar. Voru penslar og rúllur mundaðar að morgni laugardags og ekki hætt fyrr en allir veggir, flíkur og einstaka hárlokkur voru orðnir fallega Brasilíugulir að kveldi. Þá var kynt upp í grillinu og haldin heljarinnar veisla. Á sunnudeginum var svo haldið áfram að fúaverja eins og málning entist (og þynnka leyfði). Eftir standa glæsilega máluð útihús og ljóma ábúendur eins og sól í heiði eftir þessa dásamlegu helgi.


|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?