fimmtudagur, júlí 16, 2009

Nýr fjölskyldumeðlimur


Jóna Finndís og Hjalti Steinn eignuðust stóran og myndarlegan strák í gærkvöldi. Pilturinn vóg hvorki meira né minna en 4.430 grömm og var 53 cm að lengd. Kom í heiminn kl. 22.22 þann 15. júlí. Þeim mæðginum heilsast báðum vel.

Innilega til hamingju með þennan yndislega litla dreng ykkar elsku Jóna Finndís og Hjalti Steinn.

mánudagur, júní 29, 2009

Kristín Erla 1 árs

Á þessum degi fyrir einu ári síðan, vaknaði ég um þrjú-leytið og fór að horfa á Pretty woman.
Á þessum degi fyrir einu ári síðan, var 10 cm jafnfallinn snjór á Öxnadalsheiðinni.
Á þessum degi fyrir einu ári síðan, fæddist tæpra 19 marka gullfalleg stúlka á Akureyri.

Hún er eins árs í dag hún Kristín Erla og mér finnst hún hafa fæðst í gær. Samt er svo margt búið að gerast á þessu ári. Hún er komin með fimm tennur sú stutta, farin að ganga örugglega með stuðningi og vantar bara herslumuninn til að fara að ganga alveg sjálf. Hún leggur okkur foreldrunum reglulega lífsreglurnar og lætur duglega í sér heyra, ef við ekki hlýðum. Hún veit hvað hún er stór, kann að gefa koss, skilur flest það sem sagt er við hana og kann að segja mamma, pabbi og takk. Hún er ótrúlega sjálfstæð miðað við aldur og veit nákvæmlega hvað hún vill en hún er líka yndislega glaðlynd og hláturmild.


laugardagur, maí 23, 2009

Til hamingju með prófið mamma!


Bogga útskrifaðist í dag (23. maí) sem sjúkraliði frá Verkmenntaskólanum á Akureyri!

Innilega til hamingju með áfangann :-)

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

...og haustið tók við af sumrinu og veturinn af haustinu....

Það hefur margt á daga sveitavarganna drifið síðan síðast var fært í þessa dagbók. Það markverðasta er þó líklega að húsfreyja og húsbóndi eru nú orðin heiðvirð hjón en það gerðist 16. ágúst síðastliðinn og fögnuðu nánustu aðstandendur ákaft með þeim langt fram eftir nóttu af því tilefni. Litla spendýrið fékk líka nafn við sama tækifæri og heitir nú Kristín Erla. Það gefur að skilja að hjónabandssæla hefur verið þemakaka sumarsins með slíkum vinsældum að rabarabarasulta er nú uppurin á stór Sölvabakkasvæðinu.

Haustið gekk fyrir sig með hefðbundnum hætti nema húsfreyja hélt sig heima hjá spendýrinu í stað þess að rása til fjalla með öðru smalaliði. Gengu göngur þó allvel fyrir sig og hafa heimtur á lömbum aldrei verið betri... Fallþungi var sömuleiðis með almesta móti og losaði 17 kg með gerð upp á 9,67 og fitu 7,27

Kornuppskera á melunum var ljómandi góð, í hús komust 5,5 sekkir af hverjum hektara. Kornbændurnir voru því að vonum glimrandi ánægðir og skunduðu af stað með plóga sína. Linntu þeir ekki látum fyrr en snúið hafði verið rúmum 15 hekturum og verður því nóg að gera næsta vor.

Heimasæturnar dafna vel og blómstra, Kristín Erla eignaðist í haust gráflekkótta gullfallega gimbur sem heitir Rúsína. Anna Karlotta setti á hvíta kollótta gimbur sem gengur undir nafninu Kolla og saman eiga þær systur gullmolann í hjörðinni, svarflekkóttan lambhrút að nafni Bangsímon.

sunnudagur, júlí 27, 2008

Sumar í sveit


Þá eru víst komnar fjórar vikur frá því að yngri heimasætan bættist við fjölskylduna, tíminn stendur víst svo sannarlega ekki í stað. Enda er heilmikið búið að gerast í sveitinni síðan. Heyskapur er að verða langt kominn og hefur gengið vel að frátöldu endalausu bileríi á tækjabúnaði heimilisins. Er húsbóndi orðinn langþreyttur á því og skyldi engan undra. Hann fékk þó smá upplyftingu á dögunum þegar hann var dreginn með í Skagafjörðinn honum að óvörum og var hann steggjaður rækilega þar í litastríði og fljótareið.

Eldri heimasætan unir sér vel í sumarfríi og leikur sér úti mestallan daginn undir vökulu auga Ásdísar barnapíu sem er endalaust dugleg að dunda sér með henni. Henni til mikillar gleði hefur Kristján Hróar verið duglegur að koma í heimsókn og svo systkinin í Svangrund. Afi í Reykjavík skrúfaði saman sandkassa handa henni á mettíma og svo sendu þau afi og amma þeim systrum myndar sveitabæ sem vakti mikla lukku.

Sú yngri dafnar vel og er ósköp yndisleg. Hún er farin að skoða heiminn með mikilli athygli og ekki síst stóru systur sem í staðinn kyssir hana og klappar af miklum móð.
Fleiri sumarmyndir og myndir af nýju heimasætunni má finna á myndasíðu húsfreyjunnar sem var uppfærð í dag í dugnaðarkasti....



mánudagur, júní 30, 2008

Ný heimasæta á bakkanum


Jæja, þá hefur nú litla fjölskyldan á Sölvabakka stækkað töluvert, orðin heilla fjögurra manna. Það er greinilegt að kvenfélagshefðinni verður viðhaldið á bænum, því í gær 29. júní bættist við myndar stúlka. Hún var heilar 19 merkur og 55 sentimetrar og verður því væntanlega fljótlega komin til verka í sveitinni. Fæðingin gekk afskaplega vel enda topp ljósmóðir með í för, nefnilega Bjarney systir og hefðum við ekki getað haft það betra en í hennar höndum.

Svo erum við bara komin heim í sveitasæluna á ný og Anna Lotta er voða stolt stóra systir og er ósköp hrifin af "litla barninu".

miðvikudagur, júní 04, 2008

Víkurgil 4

Jæja, nú erum við Hjalti Steinn flutt einu sinni enn og ætlum ekki að flytja neitt aftur á næstunni, búin að flytja dálítið oft síðasta árið.

Við keyptum þetta hús, Víkurgil 4, sem er við rætur Hlíðarfjalls, með flottu útsýni yfir Akureyri og fjöllin hinum megin við fjörðinn. Kisurnar okkar, þær Jökla og Blanda eru kátar með nýja staðinn, ekki síst vegna þess að þær hafa aðeins fengið að kíkja út fyrir dyrnar, reyndar festar í spotta til að byrja með svo forvitnin leiði þær ekki á hættuslóðir alveg strax... Á neðri myndinni má reyndar sjá þegar þær eru að bragða á grasinu í fyrsta sinn, dálítið "kindarlegar" (myndin stækkar ef þið smellið á hana).



fimmtudagur, maí 29, 2008

MH útskrift

Lilja Dögg útskrifaðist frá MH sl. laugardag, með rosaflottar einkunnir og verðlaun bæði fyrir stærðfræði og efnafræði!

Til hamingju með áfangann elsku frænka :-)



Mig langar líka til að benda ykkur á nýjan tengil á síðunni hérna hægra megin "Gunnar Kristinsson", tengdapabbi er þar að blogga um hjólaferð sem hann er lagður af stað í um Norðurlönd.

Sauðburðarfréttir


Þá er nú sauðburður að verða langt kominn og hefur gengið vel. Húsfreyja var að rifja upp um daginn að þann 27. maí fyrir tveimur árum síðan, var allt fé á húsi sökum vorhrets, en nú hefur sagan verið heldur betur önnur. Sól og blíða upp á hvern einasta dag og féð sælt og ánægt á túnunum sem spretta í gríð og erg.

Hér hefur heldur betur verið aðstoðarlið að vanda enda húsfreyja orðin býsna þung á sér og stirð, svo það hefur verið vel þegið. Bestu þakkir öll saman.

Sprettan er þvílík að það er komið að garðslætti og verður því að fylgja með ein heimildarmynd af húsbóndanum við þá iðju.

mánudagur, mars 31, 2008

Afmæli heimasætunnar




Þá er heimasætan á Sölvabakka orðin tveggja ára og ber aldurinn býsna vel. Það hefur mikið gerst á síðasta ári. Hún lærði að ganga og hefur hlaupið um allt síðan svo hafa verður talsvert fyrir því að halda í við hana. Hún er orðin reglulega dugleg fjárhúsastelpa en veit þó fátt skemmtilegra en að fara í hesthúsið og bendir á hesta út um bílglugga hvar sem hún sér þá. Hún byrjaði á leikskóla í ágúst og finnst óskaplega gaman á leikskólanum. Hún er auk þess farin að tala þónokkuð og gerir sig vel skiljanlega, þó setningarnar séu ekki langar ennþá.

Alla jafna hefur hún verið hraust en tók þó upp á því núna kringum afmælið sitt að fá einhverja kvefpest með hita og því var ekki haldin stór afmælisveisla þessa helgina. Verður væntanlega bætt úr því innan tíðar. Hún er þó búin að fá ósköpin öll af afmælisgjöfum sem hafa allar vakið mikla lukku.

Í tilefni afmælisins tók húsfreyja sig svo til og bætti við inn á myndasíðuna myndum frá eins og síðasta hálfa ári eða svo...





This page is powered by Blogger. Isn't yours?