fimmtudagur, september 21, 2006
Sveitapistill
Sælt veri fólkið
Þá er nú orðið nokkuð síðan síðast voru sendar út sveitafréttir og mun það e.t.v. vera vegna þess að svo margt fréttnæmt hefur gerst að ekki hefur unnist tími til að skrifa um það.... (nú eða kannski skrifast þetta bara á leti húsfreyjunnar). Altént er aflokið bæði fyrri og seinni réttum og fóru þær ásamt göngum nokkuð vel fram. Golsa og Botna eru báðar komnar ásamt Nös og því fullheimt hjá heimasætunni.
Hér var mikið lið um báðar gangnaehelgar og eru húsfreyjan og Anna Karlotta komnar með meirapróf í smurbrauðsgerð enda þurftu gangnamenn og hundar þeirra að hafa eitthvað ofan í sig. Hér var glatt á hjalla eins og vanalega og klykkt út með heljarinnar kjötsúpupartíi að vanda, á laugardagskvöld fyrir seinni göngur.
Síðan er búið að slátra 290 lömbum og viktaði hópurinn 16,5 kg sem er bara vel ásættanlegt, einkunn fyrir gerð var 9,52 og fitu 7,29.
Látum gott heita af fréttum í bili og ljúkum pistlinum með nokkrum myndum af heimasætunni við leik og störf.