þriðjudagur, júní 13, 2006

Vorfréttir

Það var nefnilega það. Ekki beinlínis stutt síðan ég skrifaði síðast fréttir af bakkanum. Það er reyndar ekki svo að þar sé ekkert fréttnæmt, enda verða hér undur og stórmerki á hverjum degi þessar vikurnar, þar sem maður fylgist með prinsessunni á bænum læra eitthvað nýtt. Vekur hún óspart kæti foreldra sinna, enda fyndnasta og sniðugasta barn sem fæðst hefur.... að sjálfsögðu. Hún er altént farin að brosa og hlæja alveg óspart og bræðir hjörtu viðstaddra um leið.

Við mæðgur skelltum okkur ásamt fleirum úr fjölskyldunni suður í Drangshlíðardal um hvítasunnuhelgina. Þar var nefnilega verið að ferma hana Árnýju Rún, skrýtið að hún skuli vera orðin svona stór. Mér finnst nú ósköp stutt síðan hún var bara splunkuný eins og Anna Karlotta. En það var rosalega gaman í fermingunni, hún stóð sig náttúrulega eins og hetja, eina fermingarbarnið í kirkjunni, svo var heldur betur veisla á eftir í Drangshlíðardal og virkilega gaman.




Sauðburður er svo gott sem búinn, ein ær óborin í húsunum, svo það er allt að smella. Reiknum reyndar með að geta farið að flytja á fjall fljótlega enda gróður á hraðri uppleið í sprettutíðinni þessa dagana. Burður gekk í megindráttum bara vel, hér var mikið lið til aðstoðar eins og vanalega og var það mikill munur, ekki síst þegar veturinn birtist skyndilega aftur eftir stutt vor. Þá urðu þau stórtíðindi að hér á bæ fæddist golsótt gimbrarlamb, sem ekki hefur gerst til margra ára. Var ákveðið að gefa heimasætunni á bænum gersemina, fyrir hvað hún stóð sig með eindæmum vel úti með okkur í sauðburðinum. Hún á því aðal litadýrðina í hjörðinni, því áður hafði hún fengið Botnu litlu, veturgamla gimbur í skírnargjöf.


|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?