miðvikudagur, janúar 25, 2006

Brrrr, það var kalt í Riga!

Já það var 19-23 stiga frost í Riga en ég komst heil á húfi aftur heim, ekki síst dúnúlpunni góðu að þakka, svo og lopasokkunum, sem voru svo notaðir á heimleiðinni til að passa upp á að brennivínsflöskurnar kæmust heilar á leiðarenda.

Reyndar var nú talsverð spenna tengd Kastrup flugvelli á báðum leiðum, á leiðinni út þá var hann fullur af þreyttu og pirruðu fólki sem var búið að vera þar óþarflega lengi vegna ósamvinnuþýðra veðurguða. Á heimleiðinni bárust þær fréttir að leiðinda flensa herjaði á danska flugmenn. Sem betur fer borða Lettneskir flugmenn mikið af feitu keti og voru því fílhraustir, þeir skiluðu mér á Kastrup í veginn fyrlr íslenska fararskjótann.

Já, í Lettlandi er mikið af feitu keti á boðstólnum, það er brasað á ýmsa vegu, vel útilátið og bragðast ljómandi vel. Það voru reyndar ekki allir í hópnum kátir með viðbitið sem líktist meira svínafitu en mjólkurafurð. Hins vegar búa þeir til ljúffengar pönnukökur (svínafitulitlar, held ég) með ýmsum fyllingum og ég mæli með einni tegundinni sem var djúpsteikt pönnukaka fyllt með kornflexi að utan og brösuðum banönum innan í. Reyndar var kakóið sem ég fékk með þessum herlegheitum í þykkari kantinum. Það var meira eins og kakóbúðingur, það hefði eiginlega passað ágætlega að setja kornflex út í það líka og éta með matskeið.

En já, það var bara ljómandi gaman í Lettlandi en næst þegar ég fer þangað þá verður það vonandi á hlýrri helmingi ársins.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?