fimmtudagur, október 20, 2005

jæja jæja....

Vegna fjölda áskorana hefur húsfreyjan sest við tölvuna á ný og munu æsispennandi fréttir nú streyma frá fingrum hennar á ný.... (vonandi)

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er nú heilmikið að frétta úr sveitinni og ber þar fyrst að nefna að slátrun er að fullu lokið og hljóða lokatölur upp á 16,2 kg fallþunga, meðaltal fyrir gerð 9,01 og meðaltal fyrir fitu 7,07.

Það verður að viðurkennast að ábúendur misstu sig lítillega þegar kom að ásetningnum og endaði hann í 120 gimbrum og 8 lambhrútum. Húsbóndinn hefur síðan það kom í ljós staðið sveittur við endurbætur á norðurenda minkahússins/vélaskemmunnar til að einhvers staðar verði nú til húspláss fyrir allt það fé sem verður á fóðrum í vetur. Á meðan þvælist húsfreyjan út um allar koppagrundir að skoða líflömb á bæjum í Húnavatnssýslum og lætur vart sjá sig heima fyrir nema rétt til að festa blund yfir blánóttina. Það mun þó vera farið að sjá fyrir endann á því, þar sem útlit er fyrir að takist að slátra síðustu lömbum í sýslunni í byrjun næstu viku og hæpið að velja mikið af líflömbum úr þeim þegar svo er komið.

Búið er að taka gimbrarnar á hús og rýja þær inn að skinni, en rúningsmaðurinn frækni Bjarki á Breiðavaði var fenginn til verksins að þessu sinni.

Verið er að vinna í nöfnum á hrútana og eru allar ábendingar vel þegnar, þó svo ábúendur áskilji sér rétt til að velja hvaða nöfn sem er eða hafna öllum ef svo ber undir. Kaupahrúturinn frá Presthólum heitir að sjálfsögðu Lárus eftir henni Láru okkar og þá fannst okkur við hæfi að nefna einn þrekinn Gárason, rauðan í hnakka Maríus og ganga þeir dagsdaglega undir nöfnunum Larri og Marri.... Þá eru eftir nöfn á 6 hrúta, en þeir eru 2 Straumssynir, 1 Gárasonur, 1 Lómssonur, 1 Eldarssonur og 1 Sindbaðssonur Soldánssonar.

Þá er nú farið að tínast úr fréttapokanum að sinni, en vænta má æsifrétta að lokinni helgi, þar sem Erla, Kristín Birna, Jói, Kristján Hróar og kannski fleiri ætla að streyma norður um helgina.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?