þriðjudagur, júní 28, 2005

Litið upp úr grasrótinni....

Kom tímanlega heim úr vinnunni í dag og fann engan heima, bóndinn stunginn af ásamt vinnukonunum tveimur. Koma kannski heim aftur þegar þau eru orðin svöng :-) Ákvað að vera dugleg og reyna að slá garðinn, sem hefur sprottið óheillavænlega síðustu daga, enda gúrkutíð, rigning og sól til skiptis og Flórída hiti liggur við. Komst að því að þetta veðurfar hafði einnig þær afleiðingar að grasið var of blautt fyrir garðsláttuvélina sem hikstaði, stundi og gafst upp reglulega. Uppskar því lítið úr þessu afreki, annað en græna fingur eftir að hreinsa neðan úr blessaðri vélinni. Veðráttan og garðurinn virðast því hafa sameinast í eins konar vítahring í þessum efnum og líklega verð ég bara að brenna sinu í honum næsta vor :-)

Datt í hug að fara að taka til í staðinn, en hvarf fljótlega frá þeirri hugmynd og ákvað að blogga aðeins í staðinn, enda langt síðan ég hef gripið í þá iðju, þrátt fyrir að afsökunin “léleg nettenging” og “biluð tölva” sé löngu fyrir bí.

Vorið hefur gengið afskaplega vel hér á bakkanum, við erum búin að sleppa skjátunum á fjall og trítluðu þær sælar og glaðar upp í frelsið með afkvæmunum. Auðvitað byrjar maður strax að hlakka til að fá þær aftur heim í haust, þó líka sé ánægjulegt að fá smá sumarfrí frá þeim í bili. Botna mín hafði stækkað mikið og í ljós hefur komið að hún verður án nokkurs vafa kollótt, þannig að hér er á ferðinni upphafið að nýjum stofni á Sölvabakka, “botnukollótta stofninum”. Vona bara að hún verði viljugri niður úr fjöllunum heldur en Móbotna vinkona mín frá Síðu fyrsta haustið hennar.

Við erum búin að endurheimta Rúnu frá Spáni og fengum í kaupbæti Ásdísi systur hennar með, sem ætlar að vera hérna hjá okkur fram um næstu helgi.

Hér er annars mikill söknuður á heimilinu síðan í gær, þar sem hún Lára okkar blessunin hafði þá afplánað vist sína hér sem verknemi og kvaddi okkur. Hún ætlar þó að kíkja við á fimmtudaginn aftur og vonandi miklu oftar.

Það kom á daginn í gær að Þota hennar Bjarneyjar var köstuð og hafði eignast, brúnskjótt, leistótt, tvístjörnótt merfolald, alveg gullfallegt. Ef Jóna Finndís yfirvefari kennir mér að setja inn myndir, þá lofa ég myndum af þessari gersemi von bráðar.

Læt þetta duga í bili, reyni að blogga samviskusamlegar í framtíðinni enda búin að fá þessa fínu stafrænu myndavél sem ætti að gera bloggið enn skemmtilegra.

Bestu kveðjur
Anna Magga


|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?