laugardagur, maí 21, 2005

Sauðburður kominn af stað

Þá er sauðburður kominn vel af stað, hefur þó gengið fremur hægt enn sem komið er. Það er þó í góðu lagi, þar sem síðustu daga hefur ekki viðrað sérlega vel til að setja út lambfé. Norðaustan belgingur og næturfrost.

Hér hefur verið mikið lið til aðstoðar, kvennaveldi að mestu enda hefð fyrir því á Sölvabakka. Erla frænka var alla þarsíðustu viku og sömuleiðis Mona, mamma hennar Caró. Árdís og Jóna Finndís í vikunni sem er að verða búin, Siggi Elvar og Axel litu við um síðustu helgi og Garðar frændi reyndar líka. Mamma hefur verið á fullu með okkur milli vakta og svo eru Bjarki, Inga og Hermann Óli á leiðinni og ætla að vera um helgina. Síðan hefur heimavarnarliðið náttúrulega verið á fullu líka, Lára og Caró, ásamt okkur Sævari.

Sauðburðurinn hefur gengið afar vel, það sem af er, hraust og falleg lömb, hellingur af tvílembdum gemlingum og er unnið af krafti í að koma þeim lömbum undir einlemburnar. Svo urðu þau stórtíðindi að hér fæddist loksins svarbotnótt gimbur er slíkt hefur ekki gerst í 20 ár held ég, eða ekki síðan Buxa hennar Fríðu var og hét fyrir löngu síðan. Að vísu er rétt að geta þess að sú ær fékk sæði úr Aladín, svarbotnóttum hrút frá Gufudal en engu að síður var magnað að það kæmi þó a.m.k. eitt svarbotnótt lamb úr því, og það m.a.s. gimbur. Fær hún mikið kel og klapp enda fallegasta lamb sem fæðst hefur að mati undirritaðrar altént.

Ekkert lamb hefur lent í bakaraofninum enn sem komið er :-) eins og Freyja var að rifja upp á blogginu sínu að hefði verið gert þegar hún var í sveit hérna, en vonandi verða þau öll hraustari en svo að þess þurfi.

Nokkrar myndir úr sauðburðinum, m.a. af hinni stórfallegu Botnu má sjá hér.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?