föstudagur, apríl 01, 2005

Páskablogg

Þá eru páskarnir liðnir og fullt að fréttum sem bíða eftirvæntingarfullar eftir því að komast á vefinn. Páskarnir voru hreint út sagt frábærir, fullt af fólki, fullt af bjór, fullt af mat og heilmikið gert.

Á miðvikudagskvöldið komu sem sagt Rúna, Erla og Siggi Elvar og var alveg rosalega gaman að sjá þau. Jóna Finndís var að koma úr langri og strembinni mælingaferð og kom því ekki fyrr en á fimmtudaginn og tókst okkur systrum með nokkrum símtölum og sms-um að ákveða fyrir Boga frænda að hann kæmi með henni norður. Hann reyndi (með fremur litlum sannfæringarkrafti þó) að sannfæra okkur um að hann þyrfti nú eiginlega að læra um páskana, en m.a.s. Jóna Finndís tók það ekki sem góða og gilda afsökun, sagði honum að taka bara bækurnar með og að hún yrði komin að sækja hann eftir hálftíma J. Nú og auðvitað hlýddi Bogi eins og hann er vanur að gera þegar við systurnar setjum honum fyrir og dreif sig með norður. (Jón og Fjóla, ef þið lesið þetta, þá er rétt að hér komi fram að hann lærði í fimm tíma á páskadag J)

Á fimmtudeginum fórum við systur ásamt Boga út á Tjörn og fengum þar fínasta afmæliskaffi í tilefni þriggja ára afmælis Kristmundar Elíasar sem var reyndar þann 21. mars. Hann tók ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum voða vel á móti okkur og var þetta ljómandi skemmtilegt og rosa fínar kökur.

Á fimmtudeginum, kom Kristján rúbaggi líka og byrjuðum við aðeins að rýja þá seinnipartinn og héldum síðan uppteknum hætti við það á föstudaginn langa, enda hentar hann sérdeilis vel til slíkra verka, sökum þess hversu langur hann er. Vildi þó ekki betur til en svo að í ógáti risti ég talsvert stóra rifu á eina tvævetlu, svipað stóra eins og meðalkeisaraskurð (að vísu ekki á alveg sama stað) og var það heldur verra. Þar sem þetta var á föstudaginn langa eins og fyrr var getið og ekkert hlaupið að því að fá dýralækni á slíkum degi, þá var þess í stað brugðið á það ráð að kalla til ljósmóður utan af Skaga, nánar tiltekið Bjarneyju systur og saumaði hún rolluna saman af stakri snilld. Var ærin eftir það nefnd Ragnhildur Rist og er heilsast mjög vel eftir atvikum.

Á laugardeginum tókum við því heldur rólega framan af, rákum þó heim geldar ær og gemlinga, ásamt hrútunum og settum inn í hlöðufjárhúsið til að rýmka aðeins í fjárhúsunum. Það gekk nokkuð vel, þrátt fyrir gríðarlega vasklega framgöngu Unu litlu á tímabili. Síðan var haldin rosaleg grillveisla um kvöldið og komu þau Angela, Kristján, Lisa, Guðmundór Þór, Jóhanna og Kristinn Örn, ásamt Fríðu og Helgu Björgu þangað. Var mikið grillað, borðað, sungið og drukkið það kvöld.

Á sunnudeginum vaknaði ég svo við símann, en þá var það Magnús prestur að vita hvort ég ætlaði að mæta til messu og sinna skyldum mínum sem meðhjálpari í sókninni. Var það ágætt að fá smá áminningu þar sem ég var búin að steingleyma að það væri yfir höfuð messa þennan dag (þó það væri að sjálfsögðu ekki ósennilegt...) Við Caró drifum okkur þangað og var það ljómandi gaman. Svo var eldaður hamborgarhryggur um kvöldið og svo bara slappað af.

Á mánudagsmorguninn varð Sævar andvaka og fór því á fætur um 6-leytið. Hann tók síðan til við að hamast við að setja upp skápa í útifataforstofunni og endaði það með heljarinnar tiltekt þar inni sem var þarft verkefni. Bogi og Siggi Elvar aðstoðuðu en hinn hlutinn af hópnum fór í fjárhúsin og gaf, ásamt því að ég rúði svo sem eins og rétt tæpa kró. Síðan fórum við öll í dýrindis hádegisverð hjá mömmu, fórum aðeins á bak og kláruðum að taka til þarna í forstofunni. Rúna fúavarði nýju gluggana í fjárhúsin. Síðan tókum því síðan bara rólega það sem eftir var af degi og um fjögur-leytið hurfu svo allir gestirnir á braut.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?