þriðjudagur, janúar 18, 2005

Góðan og blessaðan daginn

Úr sveitinni er svo sem hvorki margt né merkilegt að frétta í dag, en þó rétt að tæpa á því helsta, þó ekki sé nema bara í tilefni þess að hafa svona góða dagbók til að tjá sig í. Helgin fór í hefðbundið stúss, að hluta í fjárhúsunum, en við komum því loksins í verk að skrifa upp í krónum hvaða ær fengu við hvaða hrút og skipta á hrútum milli króa ef svo illa hefði viljað til að einhver þeirra hefði ekki sinnt sínum spúsum í þetta skiptið.

Veðrið var yndislegt um helgina og hefði verið tilvalið til útreiða, hefðu einhver hross verið komin á bás, en svo er ekki. Notuðum samt helgina til þess að vinna aðeins í þeim málum, sem sagt að græja hesthúsið fyrir veturinn. Það var nefnilega tekin um það ákvörðun að lengja milligerðirnar alveg niður á gólf og loka jafnframt undir stallana, til að lágmarka hættuna á því að þessar blessuðu skepnur slasi sig eins og þeim einum er lagið.

Vaskó er í því þessa dagana að upgötva gríðarlega færni sína sem smalahundur og rýkur í þeim tilgangi öðru hverju suður í hólf, þar sem útirollurnar eru og smalar þeim út í horn við lítinn fögnuð eigandans og annarra ábúenda. Til stendur að koma þessum rollum upp í Lækjardal við fyrsta tækifæri, svo Vaskó geti frestað frekari sýningum á þessu sviði til næsta vors. Mun hann þá hafa það sem eftir lifir veturs til æfinga og hefur fengið loforð fyrir afnotum af hrafnastofni Enghlíðinga til þess gjörnings.

Ekki meira að sinni, læt vita þegar fleiri fréttir verða til.
Anna Magga

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?