þriðjudagur, nóvember 25, 2008

...og haustið tók við af sumrinu og veturinn af haustinu....

Það hefur margt á daga sveitavarganna drifið síðan síðast var fært í þessa dagbók. Það markverðasta er þó líklega að húsfreyja og húsbóndi eru nú orðin heiðvirð hjón en það gerðist 16. ágúst síðastliðinn og fögnuðu nánustu aðstandendur ákaft með þeim langt fram eftir nóttu af því tilefni. Litla spendýrið fékk líka nafn við sama tækifæri og heitir nú Kristín Erla. Það gefur að skilja að hjónabandssæla hefur verið þemakaka sumarsins með slíkum vinsældum að rabarabarasulta er nú uppurin á stór Sölvabakkasvæðinu.

Haustið gekk fyrir sig með hefðbundnum hætti nema húsfreyja hélt sig heima hjá spendýrinu í stað þess að rása til fjalla með öðru smalaliði. Gengu göngur þó allvel fyrir sig og hafa heimtur á lömbum aldrei verið betri... Fallþungi var sömuleiðis með almesta móti og losaði 17 kg með gerð upp á 9,67 og fitu 7,27

Kornuppskera á melunum var ljómandi góð, í hús komust 5,5 sekkir af hverjum hektara. Kornbændurnir voru því að vonum glimrandi ánægðir og skunduðu af stað með plóga sína. Linntu þeir ekki látum fyrr en snúið hafði verið rúmum 15 hekturum og verður því nóg að gera næsta vor.

Heimasæturnar dafna vel og blómstra, Kristín Erla eignaðist í haust gráflekkótta gullfallega gimbur sem heitir Rúsína. Anna Karlotta setti á hvíta kollótta gimbur sem gengur undir nafninu Kolla og saman eiga þær systur gullmolann í hjörðinni, svarflekkóttan lambhrút að nafni Bangsímon.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?