fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Haustið nálgast

Þá er sumarið að verða langt komið og farið að húma á kvöldin. Alltaf ef nú eitthvað huggulegt við það finnst mér, þegar kominn er tími á að kveikja útiljósið á kvöldin. Sumarið er annars búið að vera yndislegt, sól og blíða upp á hvern dag nánast. Nú er loksins farið að væta aðeins, en samt svona hlýtt og milt veður.


Við fengum tvö gullfalleg merfolöld í sumar, annað undan Þotu og Tvisti frá Sölvabakka, hún fékk nafnið Ör hið snarasta, í höfuðið á föðurömmu sinni, enda albrún á lit eins og amman. Svo fengum við heldur betur skrautlegt folald undan Siggu og Tvisti, rauðslettuskjótt, hringeygt, sokkótt og þaðan af meira. Heldur betur skrautlegt. Við erum bara ekki ennþá búin að finna nógu skrautlegt nafn til að passa við gripinn, svo ábendingar eru vel þegnar.




Við skelltum okkur á landbúnaðarsýningu í Skagafirði og þar fengu feðginin nóg við sitt hæfi að skoða af vélum og tækjum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Anna Lotta fann þarna eina gula sem hún vildi meina að passaði akkúrat í sandkassann sem ekki er reyndar kominn upp eins og til stóð. Svo var önnur öllu stærri, sem hún hélt að myndi henta pabba betur, en dró í efa að mamma myndi leyfa slíka fjárfestingu. Annars er Anna Lotta orðin leikskólastelpa, byrjaði í síðustu viku og líkar bara nokkuð vel.





|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?