mánudagur, janúar 08, 2007

Nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár öll saman og takk fyrir það gamla. Nýja árið virðist ætla að byrja vel, Sævar er ánægður með að fá frost, kannski fær hann m.a.s. einhvern snjó á þessu ári til að nota snjósleðann, það má allavega alltaf halda í vonina. Vona nú samt að það fari ekki allt á bólakaf í snjó.

Í upphafi nýs árs er jú við hæfi að rifja upp hið gamla og skoða farinn veg. Ég komst að því við upprifjun á blogginu að árið 2006 hafi verið ár mikilla frétta en þar sem það vill oft verða svo að þegar mest er að gera, er minnstur tími til að segja frá því ;-) Stórtíðindi ársins voru að sjálfsögðu að mati húsfreyjunnar fæðingar heimasætanna á Sölvabakka og Tjörn og svo þeirra síðari afrek. Nú svo var þetta náttúrulega árið sem Golsa fæddist, nýja hesthúsið var tekið í notkun, litla kisa lenti í ævintýrum og svo mætti lengi telja. Það áttu allir afmæli með hefðbundnum hætti og svo komu jól og áramót að vanda.

Tvær danskar stelpur hafa verið hjá okkur á árinu, Sirid kom og fór eftir sex mánaða dvöl og Ditte er búin að vera næstum jafn lengi og á vonandi eftir að vera hjá okkur þónokkuð í viðbót. Hún segist bara ætla að fara þegar hún er orðin leið á okkur svo við reynum okkar besta að vera skemmtileg. Þá má nefna að um næstu helgi er að koma til okkar þýsk stelpa, Marie, sem ætlar að hafa ofan af fyrir heimasætunni svo Ditte komist nú eitthvað í að temja fyrir okkur eins og til stóð. Þannig að líklega má gera ráð fyrir að við förum að taka inn hvað úr hverju enda Ditte nýkomin heim aftur eftir jólafrí í Baunaríki.

Fengitíminn er að baki og fór nokkuð skikkanlega fram. Reyndar brutu sig saman tveir hrútar svo úr því verður í bókhaldinu líklega til nýr hrútur sem hefur hlotið nafnið Blöndal. Við sæddum 50 ær, þar á meðal forystuána, svo vonandi kemur þá a.m.k. eitt skrautlegt lamb næsta vor.

Heimasætan er farin að skríða á fullu um allt, með afar frumlegum hætti, svo er hún voða dugleg að standa upp með smá aðstoð, fer alveg að fara að bjarga sér sjálf svoleiðis, vinkar eins og hún fái borgað fyrir og brosir náttúrulega og hlær eins og hún á að sér. Hún hefur nú ekki mikið fengið að fara í fjárhúsin að undanförnu, því hún er búin að vera svolítið lasin, með kvef og hósta, en það fer nú vonandi að batna.

Látum þetta yfirlit duga að sinni.
Bestu kveðjur af bakkanum.

p.s. ég blogga ekki meir fyrr en ég fæ komment frá dyggum lesendum....

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?