föstudagur, janúar 26, 2007

Örvæntingarfull gömul kona í borg óttans!

Húsmóðirin lagði land undir Subaru í gærmorgun árla dags. Um ellefu-leytið var hún komin til stórborgarinnar og ákvað þá að fara að dæmi margra eldri borgara og leggja bílnum hjá Esso við Ártúnshöfða og fá fylgd þaðan. Tók Fossbúamóðirin að sér að lóðsa þá gömlu í hestavöruverslun sem bæði snúin og krókótt leið liggur til. Að afloknum þeim erindum var gömlu konunni skilað aftur upp á Ártúnshöfða og hófust þá ævintýri hennar sjálfrar í tryllingslegri umferð á strætum borgar óttans.

Fyrsta erindið var upp í Grafarvog og þóttist kella þá vera nokkurn veginn á heimavelli, þar sem hún hefur nú komið þangað oftar en einu sinni. Förinni var heitið til Gylfaflatar nr. 5 og tilgangur ferðalagsins að skilja eftir hrossahor í glerglösum í fyrirtæki nokkru sem sérhæfir sig í að greina ættir eftir slíkum varningi. Fannst fyrirtækið eftir talsverða leit með tilheyrandi viðsnúningi, hringkeyrslum og útúrdúrum. (Note to self: veit núna hvar Vélfang er). Að því loknu var stefnan tekin á heimili tengdó og gekk sá hluti ferðarinnar vel. Fékk húsfreyja hlýjar móttökur og góðan viðurgjörning og kann Önnu tengdamömmu bestu þakkir fyrir það.

Næsti áfangastaður var Borgartún nr. 6 með viðkomu í Oddabúðinni. Gekk sá hluti leiðangursins ekki alfarið þrautalaust fyrir sig en sé litið fram hjá næstum því vitlausri beygju af Sæbrautinni, fram og tilbaka keyrslu í Borgartúni með viðkomu á Esso-stöðinni gekk hann þó bara þolanlega.

Þegar fundi nr. 1 í Borgartúni nr. 6 var aflokið, var drjúgur tími til stefnu fyrir fund nr. 2 sem fyrirhugaður var í Höll Bænda við Hagatorg. Sneri því húsmóðirin til baka upp í Oddabúð, þáði þar hressingar og hitti vini og kunningja sem sópuðust þar að.

Húsmóðirin var nú orðin all sjóuð í stórborgarakstri eftir þessa hluta leiðangursins og ók því með öruggri hendi alla leið til hallarinnar. Gerði sér m.a.s. grein fyrir því í tíma að til að beygja til hægri, þyrfti fyrst að beygja til vinstri, þar sem farið er af Snorrabraut vestur á Miklubraut. Lagði hún vagni sínum því stolt fyrir framan höllina og hélt á fund nr. 2.

Þegar heim skyldi halda úr höllinni var myrkt orðið úti fyrir og kom nú heldur á húsmóðurina. Vildi þó til að ljós við stræti borgarinnar lýstu þau að miklu leyti upp. Við nánari athugun bifreiðar húsmóðurinnar kom þó í ljós að óhreinindi á speglum og rúðum háðu útsýni nokkuð. Úr því var bætt að hluta á rauðu ljósi og enn betur síðar, á bílastæði fyrir utan veitingastað sem systir húsmóðurinnar og unnusti hennar höfðu boðið henni til. Kom þá gamall bónklútur sem var geymdur í bifreiðinni í góðar þarfir til að þurrka mesta skítinn af helstu útsýnisflötum. Að aflokinni dýrindis máltíð hélt húsfreyja síðan heim á leið, þreytt en glöð eftir góða ferð til borgarinnar og fegin að komast heilu og höldnu heim í afslappað umhverfi sveitasælunnar.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Gleymskupúkinn í algleymingi

Í hugsanaleysi mínu lét ég í pistli ársins lítið fara fyrir fréttum öðrum en af bakkanum. Að sjálfsögðu verða mótorfákakaup fallvatnafræðingsins og próf á slík tæki að teljast til stórtíðinda ársins. Annars hef ég verið að velta fyrir mér hvað réttast sé að kalla vatnafræðinginn í daglegu bloggtali.... Hugmyndirnar Fossbúinn, Blautbolakeppandinn og að sjálfsögðu Fallvatnafræðingurinn hafa komið upp en ég óska hér með eftir fleiri tilnefningum eða atkvæðum....

Önnur smáfrétt eða frásögn öllu heldur hefur blundað lengi í huga mínum en hingað til ekki komist í möskva internetsins. Við Sævar brugðum okkur á skemmtun 1. des sem ekki er nú kannski í frásögur færandi, nema heimasætan dvaldi á meðan í Svangrund. Svo komum við að sækja hana að afloknum dansleik, og blasti þá við okkur yndisleg sjón. Anna Karlotta svaf á sæng á gólfinu í hjónaherberginu og hjá henni lúrði Fríða, sem reyndar rumskaði ekki við komu okkar. Í litla rúminu hans Adda, svaf hann sjálfur og við hliðina á honum Jón mágur. Í stóra hjónarúminu breiddi hins vegar Helga Björg úr sér og virtist fara mjög vel um hana....

mánudagur, janúar 08, 2007

Nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár öll saman og takk fyrir það gamla. Nýja árið virðist ætla að byrja vel, Sævar er ánægður með að fá frost, kannski fær hann m.a.s. einhvern snjó á þessu ári til að nota snjósleðann, það má allavega alltaf halda í vonina. Vona nú samt að það fari ekki allt á bólakaf í snjó.

Í upphafi nýs árs er jú við hæfi að rifja upp hið gamla og skoða farinn veg. Ég komst að því við upprifjun á blogginu að árið 2006 hafi verið ár mikilla frétta en þar sem það vill oft verða svo að þegar mest er að gera, er minnstur tími til að segja frá því ;-) Stórtíðindi ársins voru að sjálfsögðu að mati húsfreyjunnar fæðingar heimasætanna á Sölvabakka og Tjörn og svo þeirra síðari afrek. Nú svo var þetta náttúrulega árið sem Golsa fæddist, nýja hesthúsið var tekið í notkun, litla kisa lenti í ævintýrum og svo mætti lengi telja. Það áttu allir afmæli með hefðbundnum hætti og svo komu jól og áramót að vanda.

Tvær danskar stelpur hafa verið hjá okkur á árinu, Sirid kom og fór eftir sex mánaða dvöl og Ditte er búin að vera næstum jafn lengi og á vonandi eftir að vera hjá okkur þónokkuð í viðbót. Hún segist bara ætla að fara þegar hún er orðin leið á okkur svo við reynum okkar besta að vera skemmtileg. Þá má nefna að um næstu helgi er að koma til okkar þýsk stelpa, Marie, sem ætlar að hafa ofan af fyrir heimasætunni svo Ditte komist nú eitthvað í að temja fyrir okkur eins og til stóð. Þannig að líklega má gera ráð fyrir að við förum að taka inn hvað úr hverju enda Ditte nýkomin heim aftur eftir jólafrí í Baunaríki.

Fengitíminn er að baki og fór nokkuð skikkanlega fram. Reyndar brutu sig saman tveir hrútar svo úr því verður í bókhaldinu líklega til nýr hrútur sem hefur hlotið nafnið Blöndal. Við sæddum 50 ær, þar á meðal forystuána, svo vonandi kemur þá a.m.k. eitt skrautlegt lamb næsta vor.

Heimasætan er farin að skríða á fullu um allt, með afar frumlegum hætti, svo er hún voða dugleg að standa upp með smá aðstoð, fer alveg að fara að bjarga sér sjálf svoleiðis, vinkar eins og hún fái borgað fyrir og brosir náttúrulega og hlær eins og hún á að sér. Hún hefur nú ekki mikið fengið að fara í fjárhúsin að undanförnu, því hún er búin að vera svolítið lasin, með kvef og hósta, en það fer nú vonandi að batna.

Látum þetta yfirlit duga að sinni.
Bestu kveðjur af bakkanum.

p.s. ég blogga ekki meir fyrr en ég fæ komment frá dyggum lesendum....

This page is powered by Blogger. Isn't yours?