fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Gæsapartí

Ég er að vinna upp í slæpur eins og kallað er í sveitinni. Hef nefnilega fengið nokkur góð bloggefni upp í hendurnar en ekki náð að úrbeina og matreiða ennþá.

Það var t.d. þetta með gæsaskytturnar sem mættu galvaskar eina helgina. Ég vissi ekki fyrr en þá að morgunflug getur verið teygjanlegt langt fram eftir degi. Sumar gæsir vakna víst bara ekki fyrr en upp úr hádegi.....

Það var nú ekki meira af gæs í risakornakrinum á Sölvabakka en svo, að til að hafa eitthvað að skjóta á, þá neyddust skytturnar til að eyða hálfum deginum í að kenna gerfigæsunum að fljúga. Þær voru nú hálfklaufskar svona í fyrsta flugtímanum og flugu einhverjar á skytturnar og hálfhvekktu þær á þessu. Skytturnar brugðu því á það ráð að hafa girðingarnet á milli sín og alvörugæsanna þegar þær loksins fundust, ef ske kynni að þær væru litlu flinkari í lágfluginu en þessar gerfilegu. Það fór nú samt ekkert sérstaklega vel, enda ekki talið vænlegt til árangurs að blanda saman netveiði og skotveiði. Reyndar hefði kannski verið gott að prófa girðingarnetið á gæsina sem kastaði sér til sunds daginn eftir, en það er víst alltaf gott að vera vitur eftirá....

Rok og rigning einkenndu reyndar helgina, svo eflaust er skyttunum vorkunn að vera að basla við að færa björg í bú í slíku tíðarfari. Segja má að rignt hafi úr öllum áttum og sérstaklega reyndist erfitt að forðast skyndileg uppstreymi og skúraleiðingar sem þeim fylgdi.....

Mér finnst alltaf gaman að fá gæsaskyttur í heimsókn. Reyndar finnst mér gæs ekkert sérstaklega góð en það breytir heldur engu, því gæsauppskeran er nú yfirleitt ekki til skiptanna. Það er bara svo hollt að hlæja!!!!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?