þriðjudagur, október 03, 2006

Fjárfestingar

Sölvabakkafjölskyldan (Sævar, Anna Magga, Anna Lotta og Ditte) lagði land undir fót á föstudaginn síðasta, alla leið austur í Öxarfjörð. Þar var meiningin að fjárfesta vel, nefnilega að versla eins og tvo hrúta til kynbóta á Sölvabakkabúinu. Við fengum inni á Presthólum hjá Silla og Öldu foreldrum hennar Láru okkar sem var hjá okkur í verknámi og var nú aldeilis rausnarlega tekið á móti okkur. Á laugardeginum fórum við síðan á mikinn fjármálamarkað á Raufarhöfn þar sem falir voru tæplega 200 lambhrútar hver öðrum fegri. Við fundum náttúrulega flottasta hrútinn í Presthólum og festum okkur hann snarlega og fundum svo annan glæsilegan í Sveinungsvík. Anna Lotta hafði mikinn hug á golsóttum hrút sem þarna var og ætlaði hann á Golsu sína í vetur, en ekki varð nú af þeim kaupunum samt. Hún átti síðan í harðri samkeppni við Maríus um athygli fjölmiðlamanna eins og sjá má hér.

Hjónin á Presthólum sáu síðan um fjárvörslu gripanna um nóttina ásamt fleiri hrúta fyrir Austur-Húnvetninga sem við kipptum með heimleiðis. Á sunnudagsmorguninn þegar við vorum síðan að halda af stað og fórum til að reka hrútana á kerruna, þá var búið að hnýta fallegt kort á Presthólahrútinn. Í því voru afmælisóskir og m.a. þessi vísa:

Magga leggur mönnum lið
í mörgum búmannsraunum.
Þennan hrút að sveitasið
sendum við þér að launum.

Þannig að ekki fengum við að borga hrútinn þetta árið frekar en í fyrra, en þá var okkur tjáð að fyrsta hrútinn fengjum við frítt....

Þetta var alveg með eindæmum frábær helgi og kunnum við Presthólafjölskyldunni bestu þakkir fyrir bæði hrútinn og gestrisnina.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?