miðvikudagur, mars 15, 2006

Nýtt hesthús á bakkanum...





Yfir mér hefur ríkt blogglægð að undanförnu. Trúlega er þetta í einhverju samhengi við lægðirnar sem gengið hafa yfir bakkann í vetur með tilheyrandi hlýindum og vorveðri. Rétt er þó að reyna að bæta úr þessu nú með hækkandi sól.

Helst í fréttum er að húsbóndinn er nú ásamt Himma, Sirid og fleiri að verða búinn að leggja lokahönd á nýja hesthúsið sem kemur í staðinn fyrir gamla kálfafjósið sem eflaust einhverjir kannast við og hafði nú í seinni tíð þjónað tilgangi geymslu fyrir ýmsa nytsamlega sem ónytsamlega hluti. Stefnt er á að taka inn í það um næstu helgi, en það eina sem eftir er að gera er að leggja gúmmí á gólfið og er það vonandi væntanlegt að sunnan í vikunni. Er þetta búin að vera töluvert löng fæðing en vel þess virði þegar litið er yfir verkið.

Annars er búið að telja fósturvísa í ánum og virðist frjósemin ætla að vera nokkuð betri en í fyrra sem er að sjálfsögðu hið besta mál. Sprella og Heiða gerðu góða ferð hér norður yfir heiðar og töldu í fjölmörgum Húnvetnskum ám beggja vegna Gljúfurár.

Svo ætlar húsbóndinn að taka þátt í Stórsýningu Húnvetnskra hestamanna á laugardagskvöldið í samfylgd Snerpu hennar Jónu Finndísar. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því.

En það er víst best að blogga ekki yfir sig eftir svona langt hlé og læt ég því staðar numið að sinni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?