þriðjudagur, mars 21, 2006
Nýja hesthúsið tekið í notkun
Á bakkanum reka hver stórtíðindin önnur þessa dagana. Það kom að því að hesthúsið fína kláraðist og var það tekið í notkun við hátíðlega athöfn á sunnudaginn síðasta. Snerpa og Röst fengu að vera fyrstar til að vígja húsið og virtist þeim bara líka það býsna vel. Svo voru rekin heim hross og tekin inn sex hross til viðbótar svo nú er orðið þéttskipaður hestafloti á húsi.
Að aflokinni inntöku í nýja húsið var boðið upp á vöfflur með súkkulaði og rjóma fyrir þá sem sáu sér fært að mæta. Himmi var þar að sjálfsögðu fremstur í flokki ásamt heimilisfólki (eða er kannski réttast að segja öðru heimilisfólki....)
Síðan má nú ekki gleyma því að í dag er stórafmæli í fjölskyldunni. Kristmundur Elías er orðinn fjögurra ára og er búinn að bjóða í mikla veislu í tilefni dagsins seinni partinn í dag.