föstudagur, ágúst 12, 2005

fréttamolar....


Í fréttum er þetta helst.

Nokkuð vel hefur gengið að heyja í sumar. Þó er heyskap ekki að fullu lokið, því við ákváðum að slá ekki nýræktina fyrr en væri nokkuð örugg þurrkspá framundan. Á mánudaginn síðasta spáði síðan nokkuð góðum þurrki fram í vikuna, svo hún var rifin niður ásamt stykkinu hans afa og síðan hefur rignt.... Búa bændur þó enn við þá von og föstu reglu sem verið hefur í gildi fram til þessa, að aldrei hefur rignt svo að ekki hafi stytt upp aftur.

Verslunarmannahelgin fór vel og óvanalega settlega fram. Þar sem heyskapur var í fullum gangi þá, varð ekkert úr árlegri hestareisu og ekki varð heldur úr afmælisferð austur í Drangshlíðardal. Halló Sölvabakki var því haldinn að mestu innan landareignarinnar og var mæting býsna góð, þrátt fyrir válega veðurspá og rigningu með köflum.

Um síðustu helgi var svo sumarsmölun á Breiðavaði sem lauk með heljarinnar útihátíð, grillveislu, vatnsslag og öllu tilheyrandi. Set kannski inn myndir þaðan fljótlega. Skapti og Hildur á Hafsteinsstöðum komu síðan ríðandi á laugardagskvöldið ásamt fríðu föruneyti og fylgdum við þeim fram í Kirkjuskarð daginn eftir í indælis veðri.

Læt þetta duga í bili.
Bestu kveðjur

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Afmælisveisla í Drangshlíðardal

Nú er verslunarmannahelgin að baki, ég sit hérna heima í holtinu, þurrka tjald og viðra svefnpoka á svölunum og stofugólfinu.

Útihátíðin mín var í Drangshlíðardal hjá Lenu systur, hún varð fertug í gær og hélt heilmikla veislu. Ég lagði land undir fót/hjól degi fyrr og brunaði austur undir Eyjafjöll, að Skógafossi, með fullan bíl af dóti, afmælisgjöfum frá mér og systrum mínum, mömmu og svo krökkunum í Dranshlíðardal. Sunnudagurinn fór í það að púsla saman gasgrillinu sem var í einum pakkanum (naut ég við það aðstoðar þriggja frænkna á aldrinum 2-16 ára og svo 4 ára frænda, setja upp flest tjöld sem á bænum fundust og svo skruppum við til Víkur á Unglingalandsmót þar sem við átum ís, horfðum á nokkur hlaup og hoppuðum í hoppikastala við mikinn fögnuð yngstu kynslóðarinnar.

Þegar kvölda tók fór að drífa að fólk úr öllum áttum og fjölgaði í tjaldbúðunum. Daginn eftir stóð Lena í ströngu við að útbúa allan matinn í veisluna, púsla saman grillspjótum og úrbeina læri og við hin reyndum aðeins að hjálpa til við það, knúsa krakkana og setja upp glænýtt fjölskyldutjald í rigningunni (við komumst að því að sex manna tjald þýðir að það þarf allavega sex manns til að tjalda því í fyrsta skipti). Hófst svo veislan um kvöldmatarleytið, hver rétturinn öðrum gómsætari, lambalæri, grillspjót, skötuselur, triffle og rjómaterta, fylltar döðlur og sykurpúðar. Púff, ég lá á blístri löngu eftir að ég var komin út í tjald að sofa...

Takk Lena fyrir frábæra veislu!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?