laugardagur, maí 21, 2005

Sauðburður kominn af stað

Þá er sauðburður kominn vel af stað, hefur þó gengið fremur hægt enn sem komið er. Það er þó í góðu lagi, þar sem síðustu daga hefur ekki viðrað sérlega vel til að setja út lambfé. Norðaustan belgingur og næturfrost.

Hér hefur verið mikið lið til aðstoðar, kvennaveldi að mestu enda hefð fyrir því á Sölvabakka. Erla frænka var alla þarsíðustu viku og sömuleiðis Mona, mamma hennar Caró. Árdís og Jóna Finndís í vikunni sem er að verða búin, Siggi Elvar og Axel litu við um síðustu helgi og Garðar frændi reyndar líka. Mamma hefur verið á fullu með okkur milli vakta og svo eru Bjarki, Inga og Hermann Óli á leiðinni og ætla að vera um helgina. Síðan hefur heimavarnarliðið náttúrulega verið á fullu líka, Lára og Caró, ásamt okkur Sævari.

Sauðburðurinn hefur gengið afar vel, það sem af er, hraust og falleg lömb, hellingur af tvílembdum gemlingum og er unnið af krafti í að koma þeim lömbum undir einlemburnar. Svo urðu þau stórtíðindi að hér fæddist loksins svarbotnótt gimbur er slíkt hefur ekki gerst í 20 ár held ég, eða ekki síðan Buxa hennar Fríðu var og hét fyrir löngu síðan. Að vísu er rétt að geta þess að sú ær fékk sæði úr Aladín, svarbotnóttum hrút frá Gufudal en engu að síður var magnað að það kæmi þó a.m.k. eitt svarbotnótt lamb úr því, og það m.a.s. gimbur. Fær hún mikið kel og klapp enda fallegasta lamb sem fæðst hefur að mati undirritaðrar altént.

Ekkert lamb hefur lent í bakaraofninum enn sem komið er :-) eins og Freyja var að rifja upp á blogginu sínu að hefði verið gert þegar hún var í sveit hérna, en vonandi verða þau öll hraustari en svo að þess þurfi.

Nokkrar myndir úr sauðburðinum, m.a. af hinni stórfallegu Botnu má sjá hér.

mánudagur, maí 02, 2005

Sumarkveðja

Sumarið er komið, með sól og blíðu, þó maí-hretið hafi tekið fljótlega við af því í bili. Fremur kalt veður á bakkanum um þessar mundir, en það gerir svo sem ekkert til þar sem allar ær eru ennþá innandyra.

Lóan lét heyra í sér á síðasta degi vetrar og bar okkur hlýja kveðju sunnan úr Drangshlíðardal, kærar þakkir fyrir það Lena mín. Hún hefur látið óspart í sér heyra síðan, syngur vorinu lof og dýrð að vanda, ásamt flestum hinum farfuglunum. Þó lætur spóinn ennþá bíða eftir sér.

Sauðburður er hafinn á Sölvabakka, sæðislömbin hafa verið að bunast út síðan á laugardagsmorgun, en þá kom hún Fluga mín með lambakóng og lambadrottningu. Það er reyndar dálítið írónískt, að ég man ekki til þess hér áður að ég hafi nokkurn tímann átt lambakóng og/eða drottningu, en svo þegar við eigum núna nær allar ærnar, þá kemur ein af mínum “orginal” ám með slíka sumargjöf handa mér. Jafn skemmtilegt var það nú fyrir því og þeim heilsast öllum vel ásamt öðrum fénaði. Tvær ær eru komnar þrílembdar, önnur nr. 744 af svokölluðu “Jónu Finndísar kyninu” sem er ekki síðra kyn en “séra Guðmundar kynið” í sögunni góðu. Hún er þó ekki með hálft að aftan og stíft, heldur gamla góða tvílembingsmarkinu. Upp hefur komist um mismörkunina á sínum tíma, þar sem á móðurmerkinu stendur skilmerkilega JFJ 431.

Við gerðum góðan túr út á Skaga í tilefni Sumardagsins fyrsta á dögunum og tókum að sjálfsögðu Caró og Láru með okkur til að sýna þeim um í héraðinu. Kíktum örstutt við hjá Bjarneyju, svo í Höfnum, borðuðum dýrindis hádegisverð á Hrauni hjá Merete og Steina. Þar kíktum við svo aðeins í fjárhúsin og gengum síðan aðeins um æðarvarpið, þó að vísu hafi enginn fugl verið kominn í það enn. Það var engu að síður rosa gaman að sjá þetta, gríðarstórt svæði og haganlega búið að blessuðum æðarkollunum. Síðan enduðum við í veislukaffi á Sævarlandi, röltum aðeins niður í fjöru þar og skoðuðum Hvammskirkju. Þetta var með eindæmum skemmtileg ferð og gaman að gera sér svona dagamun.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?