föstudagur, janúar 14, 2005

Góðan og blessaðan daginn

Nú hefur ýmislegt gerst á bakkanum síðustu daga. Eins og fram er komið, er mamma flutt í Svangrund - ömmuhús, og svaf hún þar fyrstu nóttina á sunnudaginn síðasta. Innilega til hamingju með það mamma mín. Við Sævar erum byrjuð að taka upp úr kössum og raða upp í skápa sem er verulega spennandi, næstum eins og við séum að fá þetta dót allt aftur, þar eð við vorum búin að gleyma að við ættum helling af þessu :-) sniðugt ekki satt.

Við erum búin að endurheimta strokukindurnar okkar, sem stungu af frá rúllu á heimatúninu um daginn. Við vorum nú farin að hafa nettar áhyggjur af þeim en um helgina gafst bæði tími og veður til að athuga með þær og fundust þær niðri í Ósvík. Þær báru sig nú síður en svo illa og töldu litla ástæðu til að halda heim á leið en með fortölum, tókst þó að telja þær á það enda vaskur hópur smalamanna á ferð. Himmi fór fyrir þær á snjósleða, við mamma stóðum í fyrirstöðu, Sævar tróð slóð á vélinni fyrir þær og Trítla sat inni í vél og stjórnaði talstöðvasamskiptum.

Á mánudaginn fengum við síðan óvænta heimsókn, en þá komu níu hross röltandi eftir Neðribyggðarveginum. Eftir talsverða eftirgrennslan, kom í ljós að þarna voru á ferðinni hross Ingimars Pálssonar og Frímanns sem höfðu verið í haustvist uppi á Þverá. Höfðu þau ákveðið að skoða sveitina aðeins nánar og leiddi Mannskaða Rauður hópinn heim á Sölvabakka, en þar kannaðist hann vel við sig og hefði sjálfsagt getað hugsað sér að dvelja þar eitthvað lengur.

Ekki meira að sinni.... bestu kveðjur

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?