sunnudagur, júlí 27, 2008

Sumar í sveit


Þá eru víst komnar fjórar vikur frá því að yngri heimasætan bættist við fjölskylduna, tíminn stendur víst svo sannarlega ekki í stað. Enda er heilmikið búið að gerast í sveitinni síðan. Heyskapur er að verða langt kominn og hefur gengið vel að frátöldu endalausu bileríi á tækjabúnaði heimilisins. Er húsbóndi orðinn langþreyttur á því og skyldi engan undra. Hann fékk þó smá upplyftingu á dögunum þegar hann var dreginn með í Skagafjörðinn honum að óvörum og var hann steggjaður rækilega þar í litastríði og fljótareið.

Eldri heimasætan unir sér vel í sumarfríi og leikur sér úti mestallan daginn undir vökulu auga Ásdísar barnapíu sem er endalaust dugleg að dunda sér með henni. Henni til mikillar gleði hefur Kristján Hróar verið duglegur að koma í heimsókn og svo systkinin í Svangrund. Afi í Reykjavík skrúfaði saman sandkassa handa henni á mettíma og svo sendu þau afi og amma þeim systrum myndar sveitabæ sem vakti mikla lukku.

Sú yngri dafnar vel og er ósköp yndisleg. Hún er farin að skoða heiminn með mikilli athygli og ekki síst stóru systur sem í staðinn kyssir hana og klappar af miklum móð.
Fleiri sumarmyndir og myndir af nýju heimasætunni má finna á myndasíðu húsfreyjunnar sem var uppfærð í dag í dugnaðarkasti....This page is powered by Blogger. Isn't yours?