miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Aftaka og annað eftirtektarvert

Það er búið að rýja og sáu rúbaggarnir til þess að það hefðist af. M.a.s. lét týndi rúbagginn sjá sig í mýfuglamynd og var bara gaman að vera öll fjögur saman á ný. Atið hófst hjá þjálfaranum og var tekið af þeim fáu skjátum sem hún var ekki búin með áður. Síðan lá leiðin á bakkann og voru þar rúnar inn að skinni um 340 skjátur á rúmum degi, auk hrútanna og var það metið afrek dagsins.

Heimtur eru að verða þokkalegar, um daginn sáust sex kindur í Kúskerpislandi og voru þær sóttar hið snarasta. Hér áður þekktist orðtakið af ef einhverjar kindur voru óþekkar eða höguðu sér að einhverju leyti eins og kindur eiga ekki að gera, að þá áttu Bogga eða stelpurnar það. Í þessum sex kinda hópi var ein með marki húsfreyjunnar, ein með Jónu Finndísar marki, ein með Bjarneyjar marki og ein með Fríðu marki.... Skrýtin tilviljun, eða kannski hefur verið eitthvað til í þessu....

Svo komu rjúpnaskyttur um daginn, en það gekk svo ljómandi vel hjá þeim, að eiginlega er ekkert gaman að segja frá því. Þeir fundu nokkrar frosnar rjúpur og hirtu þær, milli þess sem þeir bruddu hraðfrystar samlokur og kókmola með.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Gæsapartí

Ég er að vinna upp í slæpur eins og kallað er í sveitinni. Hef nefnilega fengið nokkur góð bloggefni upp í hendurnar en ekki náð að úrbeina og matreiða ennþá.

Það var t.d. þetta með gæsaskytturnar sem mættu galvaskar eina helgina. Ég vissi ekki fyrr en þá að morgunflug getur verið teygjanlegt langt fram eftir degi. Sumar gæsir vakna víst bara ekki fyrr en upp úr hádegi.....

Það var nú ekki meira af gæs í risakornakrinum á Sölvabakka en svo, að til að hafa eitthvað að skjóta á, þá neyddust skytturnar til að eyða hálfum deginum í að kenna gerfigæsunum að fljúga. Þær voru nú hálfklaufskar svona í fyrsta flugtímanum og flugu einhverjar á skytturnar og hálfhvekktu þær á þessu. Skytturnar brugðu því á það ráð að hafa girðingarnet á milli sín og alvörugæsanna þegar þær loksins fundust, ef ske kynni að þær væru litlu flinkari í lágfluginu en þessar gerfilegu. Það fór nú samt ekkert sérstaklega vel, enda ekki talið vænlegt til árangurs að blanda saman netveiði og skotveiði. Reyndar hefði kannski verið gott að prófa girðingarnetið á gæsina sem kastaði sér til sunds daginn eftir, en það er víst alltaf gott að vera vitur eftirá....

Rok og rigning einkenndu reyndar helgina, svo eflaust er skyttunum vorkunn að vera að basla við að færa björg í bú í slíku tíðarfari. Segja má að rignt hafi úr öllum áttum og sérstaklega reyndist erfitt að forðast skyndileg uppstreymi og skúraleiðingar sem þeim fylgdi.....

Mér finnst alltaf gaman að fá gæsaskyttur í heimsókn. Reyndar finnst mér gæs ekkert sérstaklega góð en það breytir heldur engu, því gæsauppskeran er nú yfirleitt ekki til skiptanna. Það er bara svo hollt að hlæja!!!!

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Afmæli - Afmæli



Hún átti afmæli í gær, hún átti afmæli í gær....
Ofurskonsan hún Jóna Finndís átti afmæli í gær, en sökum tímamismunar tókst ekki að setja inn bloggfærslu þess efnis á réttum degi. Hún er því orðin árinu eldri stúlkan og degi betur....

Til hamingju elsku Jóna Finndís!!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?