fimmtudagur, apríl 06, 2006

Litla gullkúlan á SölvabakkaJæja, þá er víst alveg kominn tími á að setja inn fleiri myndir af prinsessunni og segja aðeins meira frá.

Sökum slæmrar veðurspár, þá ákváðum við Sævar að skella okkur suður til Reykjavíkur mánudaginn 27. mars, svo að við yrðum nú ekki veðurteppt, ef eitthvað færi að hreyfa sig áleiðis út úr bumbunni. Við áttum nú svo sem ekki von á að það færi nokkuð að gerast, enda allt rólegt þar inni. Það fór þó svo að litla daman ákvað að láta mömmu og pabba ekkert vera að bíða lengi í höfuðborginni, hefur líklega grunað að það væri ekki þeirra uppáhaldsstaður og fór því að bylta sér af stað á mánudagskvöldið. Við fórum því upp á Landsspítala um fjögur-leytið þegar farið var að styttast á milli og héldum að við gætum nú bara drifið þetta af fyrir hádegi. Það gekk þó ekki alveg svo hratt en kl 00:12 miðvikudaginn 29. mars, birtist langþráð prinsessan og reyndist bara býsna stór og auðvitað alveg ofboðslega falleg. Líklega fallegasta barn sem fæðst hefur!! Hún var 4086 grömm eða rúmar 16 merkur og 53 sentimetrar.

Við þurftum að liggja í nokkra daga inni á spítalanum, en fengum loks að koma heim á sunnudaginn síðasta. Það var dásamlegt að koma heim á Sölvabakka með litlu prinsessuna og sýna henni heimilið sitt. Hún er alveg sérlega vær og góð, dugleg að drekka og þyngist hratt. Sefur svo mest þess á milli og finnst alveg sérstaklega notalegt að kúra hjá pabba sínum.

Þetta er því yndislegt líf hjá okkur hér á Sölvabakka þessa dagana. Við þökkum kærlega allar kveðjurnar sem okkur hafa borist síðustu daga.

Kær kveðja
Anna Magga, Sævar og 8 daga gullkúla.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?