mánudagur, mars 14, 2005

Fréttafargan

Þá er nú aldeilis langt síðan ég hef bloggað og kominn tími til að dæla út fréttum en af þeim eru komnar töluverðar birgðir sýnist mér.

Ber þar fyrst að telja að um þarsíðustu helgi, þá kom stór hluti af Drangshlíðardalsfjölskyldunni í heimsókn norður á Sölvabakka og Svangrund, og það var æðislega gaman. Lena og Guðni komu sem sagt, ásamt þeim Árnýju Rún, Ingólfi Frey og Jónu Guðlaugu. Þau voru nú ekkert búin að skoða ömmuhús, síðan flutt var inn í það en leist að sjálfsögðu afar vel á slotið. Nú reyndi líka á hvort hægt væri að taka á móti svona mörgum gestum í nýja húsinu, og stóðst það prófið með prýði. Dagskráin hjá þeim var síðan nokkuð stíf yfir helgina og vandlega skipulagt hvenær hver okkar mæðgna byði í mat eða kaffi. En þetta var allavega alveg æðislega gaman að fá þau í heimsókn hingað norður.

Um helgina síðustu var síðan hitt og þetta um að vera. Við brugðum undir okkur betri fætinum og skruppum til Ellu sprellu, og rúðum slatta á laugardeginum. Rúbaggaklúbburinn var að vísu heldur fámennur að þessu sinni, þar sem hvorki Kristján né Þröstur sáu sér fært að mæta. Var mál manna að við Ella værum búnar að drepa þá alveg af okkur og er hér með skorað á þá kappana að afsanna þessa kenningu með betri mætingu í næstu törn. Sævar ákvað að skipta sér lítið af rúningnum, en fann sér þess í stað forláta John Deere, sem reyndar var aðeins bilaður, og gat hann dundað sér við að gera við hann fram eftir degi, auk þess sem hann tók að sér að búa til jafninginn í hádeginu, og tókst það fádæma vel. Erla perla sem skellti sér með okkur, var hins vegar á fullu sem aðstoðarrúbaggi, dró að og tróð í poka, sem var aldeilis ljómandi.

Á leiðinni norður aftur, þá var auðvitað ekki annað hægt en að koma aðeins við hjá Lenu systur og fjölskyldu í Drangshlíðardal. Við gleymdum víst óvart að hringja á undan okkur, og mátti litlu muna að Lena systir fengi hjartaáfall þegar hún sá okkur, enda kannski frekar fátítt að við dettum inn í kaffisopa á sunnudögum þar syðra. Það var voða notalegt að kíkja aðeins við hjá þeim, þó við gæfum okkur svo sem ekki tíma til að stoppa lengi, enda þónokkuð eftir af leiðinni og nokkur stopp fyrirhuguð í Reykjavík.

Aðal spenningur helgarinnar var þó enn eftir, því nú var haldið af stað áfram til Reykjavíkur, þar sem danska kaupakonan okkar tilvonandi beið eftir okkur. Hún kom nefnilega frá Danmörku á laugardeginum, og var “í geymslu” hjá Önnu og Sigga á meðan við vorum fyrir sunnan. Hún heitir Caroline og er held ég bara alveg eldhress 18 ára stelpa. Okkur leist allavega rosalega vel á hana og hlökkum bara til að hafa hana með okkur í verkunum heima fram á vor.

Jæja, þetta er víst orðið nokkuð langt hjá mér, enda enginn fréttaskortur þessa dagana. Ekki meira í bili samt.

Kær kveðjaAnna Magga

This page is powered by Blogger. Isn't yours?